Fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna á þingi, utan Sjálfstæðisflokksins, telja ákjósanlegt að spyrja þjóðina um áframhaldandi viðræður um inngöngu í Evrópusambandið. Þetta kom fram í pallborðsumræðum á fundi Samtaka iðnaðarins með forystufólki í stjórnmálum í Hörpu í morgun.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði þjóðaratkvæðagreiðslu „álitlega“.
Málefnin sem voru rædd á fundinum voru sex talsins: efnahagslegur stöðugleiki, húsnæði, menntun, samgöngur og innviðir, orka og umhverfi, og nýsköpun.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var fulltrúi Framsóknarflokksins í stað Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hafði upphaflega verið skráður.
Mesta púðrið fór í umræður um efnahagslegan stöðugleika. Í því samhengi var gjaldmiðillinn til umræðu, einkum eftir að Jóna Sólveig Elínardóttir, fulltrúi Viðreisnar, ræddi um kosti myntráðs til að auka stöðugleika í efnahagslífinu. Hún taldi brýnt að fara í breytingar á núverandi kerfi.
Össur Skarphéðinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, benti á ókosti myntráðs en fullyrti enn fremur að þjóðin þyrfti að fá að kjósa um aðild að Evrópusambandinu og um að taka upp evru.
Katrín Jakobsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, tók í sama streng og sagðist vilja leyfa þjóðinni að kjósa hvort tveggja um áframhaldandi viðræður og um aðild að Evrópusambandinu. Hún benti jafnframt á að „gjaldmiðill er fyrst og fremst tæki“ og þar af leiðandi þyrfti að horfa á hann sem slíkan.
„Við munum fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við ætlum að ganga inn í Evrópusambandið, já eða nei,“ sagði Lilja Dögg afdráttarlaust. Samhliða benti hún á þann vanda sem ríki innan Evrópusambandsins standa frammi fyrir og nefndi Grikkland og Írland.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem stýrði umræðunum greip boltann á lofti og benti Lilju Dögg á að Írland hefði samt sem áður náð að laða til sín fjölda tæknifyrirtækja til starfa í landinu. Lilja Dögg taldi að umhverfið á Íslandi væri ákjósanlegt fyrir slíkt hið sama.
„Ég er ekki hlynntur inngöngu inn í Evrópusambandið. En þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við göngum inn eða ekki er mjög álitleg,“ sagði Teitur Björn Einarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hann lagði jafnframt ríka áherslu á að viðhalda stöðugleika í peningastefnu.
Smári McCarthy, fulltrúi Pírata, taldi ákjósanlegt að notast við fastgengisstefnu til að auka stöðugleika. Hann benti á það þyrfti að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og bæta tækni- og iðnmenntun.
Þórunn Pétursdóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar, vildi einnig þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún benti á að það þyrfti að vera öflugri framtíðarsýn og að við þyrftum að móta stefnu til langtíma í umhverfis-, heilbrigðis- og menntamálum. „Ekki eingöngu til nokkurra ára í senn eða á milli kjörtímabila.“
Nýsköpun bar einnig á góma. Allir voru sammála um að það þyrfti að hlúa vel að sprotafyrirtækjum.
Flestir þingmenn voru sammála um að hér þyrfti að efla innviði samfélagsins til að samfélagið væri betur í stakk búið til að taka á móti fjölgun ferðamanna.
Lítið sem ekkert var rætt um menntun sem slíka nema að það þyrfti að halda áfram að efla hana.
Á fundinum voru kynntar niðurstöður úr könnun sem Maskína gerði fyrir SI til að máta málefnaáherslur samtakanna við áherslur kjósenda. Þar kemur meðal annars fram að um 88% kjósenda á aldrinum 18-75 ára finnist það skipta miklu máli að stjórnmálaflokkar leggi áherslu á húsnæðismál og 87% finnist stöðugleiki í efnahagslífinu skipta miklu máli.