Reglur ESB „óumsemjanlegar“

Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur við Akureyrarkirkju.
Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur við Akureyrarkirkju. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Sr. Svavar Al­freð Jóns­son, sókn­ar­prest­ur á Ak­ur­eyri, sendi á dög­un­um fyr­ir­spurn til Evr­ópu­sam­bands­ins þar sem hann grennslaðist fyr­ir um það hvert eðli um­sókn­ar að sam­band­inu væri. Hvort í slíkri um­sókn fæl­ist að kanna án skuld­bind­inga hvað væri í boði í þeim efn­um eða hvort í henni fæl­ist yf­ir­lýs­ing um vilja til þess að ganga í Evr­ópu­sam­bandið.

Svavar seg­ist á bloggsíðu sinni hafa viljað fá úr þessu skorið þar sem skipt­ar skoðanir hafi verið í umræðunni hér á landi um það hvað ná­kvæm­lega fel­ist í um­sókn að Evr­ópu­sam­band­inu. Þannig hafi sum­ir sagt að hægt væri að sækja um inn­göngu ein­ung­is til þess að sjá hvað væri í boði af hálfu sam­bands­ins á meðan aðrir hafi sagt að ekki væri hægt að senda inn um­sókn án þess að hlíta skil­yrðum sem sett væru í um­sókn­ar­ferl­inu.

Svavar seg­ir í sam­tali við mbl.is að fyr­ir­spurn­in hafi þannig ein­fald­lega snú­ist um að það lægi fyr­ir með skýr­um hætti hvert eðli slíkra umræðna væri þannig að fólk væri bet­ur í stakk búið til þess að mynda sér skoðun á mál­inu óháð því hver afstaða þess ann­ars væri til þess hvort Ísland ætti að ganga í Evr­ópu­sam­bandið eða ekki.

Snú­ast um tíma­setn­ingu upp­töku lög­gjaf­ar ESB

Svar við fyr­ir­spurn­inni frá upp­lýs­inga­veitu sam­bands­ins, Europe Direct, barst tíu dög­um eft­ir að fyr­ir­spurn­in var send til þess að sögn Svavars. Fyr­ir­spurn hans var svohljóðandi í ís­lenskri þýðingu:

„Þegar ríki ákveður að sækja um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið, lít­ur sam­bandið þá á slíka um­sókn annaðhvort sem 1) fyr­ir­spurn án skuld­bind­inga þar sem mögu­leik­arn­ir í boði fyr­ir um­sókn­ar­ríkið eru kannaðir og fundn­ar mögu­leg­ar und­anþágur frá óhag­stæðum atriðum lög­gjaf­ar Evr­ópu­sam­bands­ins eða 2) yf­ir­lýs­ingu um vilja um­sækj­and­ans til þess að ganga í sam­bandið í sam­ræmi við lög­form­legt fyr­ir­komu­lag inn­göngu í það?“

Svar Evr­ópu­sam­bands­ins var á þessa leið í ís­lenskri þýðingu:

„Regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins sem slík­ar (einnig þekkt­ar sem acquis) eru óumsemj­an­leg­ar; þær verður að lög­leiða og inn­leiða af um­sókn­ar­rík­inu. Inn­göngu­viðræður snú­ast í raun um það að samþykkja hvenær og með hvaða hætti um­sókn­ar­ríkið tek­ur upp og inn­leiðir með ár­ang­urs­rík­um hætti allt reglu­verk ESB og stefn­ur. Inn­göngu­viðræður snú­ast um skil­yrði og tíma­setn­ingu upp­töku, inn­leiðing­ar og fram­kvæmd­ar gild­andi laga og reglna ESB.

Hafa ber í huga að ESB starf­ræk­ir víðtækt samþykkt­ar­ferli sem sér til þess að ný ríki eru aðeins samþykkt þegar þau geta sýnt fram á það að þau muni og geti sinnt hlut­verki sínu sem full­gild­ir aðilar, það er með því að upp­fylla all­ar regl­ur ESB og staðla, hafa samþykki stofn­ana sam­bands­ins og ríkja þess og með því að hafa samþykki eig­in borg­ara - annaðhvort í gegn­um samþykki þjóðþinga þeirra eða þjóðar­at­kvæði.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert