Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir fátt nýtt hafa komið fram á þingflokksfundi. Hann var haldinn eftir fulltrúar Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar hittust og ræddu grundvöll ríkisstjórnarsamstarfs fyrr í dag.
„Við fórum bara yfir þennan fund, þennan stóra fund. Það liggur fyrir að fulltrúar þessara flokka ætla að hittast aftur á morgun klukkan eitt og taka ákvörðun um hvort við höldum áfram með þetta eða ekki,“ segir Katrín í samtali við mbl.is um kvöldmatarleytið og jánkar því aðspurð að ákvörðun um hvort formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjist verði tekin á morgun.
Að hennar mati voru fulltrúar flokkanna fimm jákvæðir eftir stóra fundinn í dag en eins og áður kemur fram þá skýrast málin frekar á morgun:
„Það var allavega hugur í fólki á þessum fundi í dag. Það virkuðu allir mjög jákvæðir. Fólk átti eftir að fara í sitt bakland og sína þingflokka þannig að það skýrist þá á morgun.“