Vilja Pál sem borgarstjóra

Páll Magnússon alþingismaður.
Páll Magnússon alþingismaður.

Páll Magnússon alþingismaður var oftast nefndur þegar spurt var hvern menn vildu sjá sem næsta oddvita sjálfstæðismanna. Rétt rúm 22 prósent nefndu Pál, segir í frétt Fréttablaðsins í dag.

8,3 prósent þeirra sem tóku afstöðu nefndu Svanhildi Hólm Valsdóttur, 6,2 prósent nefndu Áslaugu Friðriksdóttur, 4,5 prósent nefndu Kjartan Magnússon og 4,1 prósent Borgar Þór Einarsson. Þá nefndu 0,8 prósent Eyþór Arnalds. Hins vegar nefndu 54 prósent einhvern annan. Flest þeirra vildu Bjarna Benediktsson og Davíð Oddsson var líka oft nefndur.

Afar fáir, eða rétt rúmlega fimmtán prósent þeirra sem spurðir voru „Hver finnst þér að eigi að leiða lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018?“, tóku afstöðu til spurningarinnar.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að tveir aðstoðarmenn ráðherra væru orðaðir við framboð í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum; þau Borgar Þór Einarsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir. Þá væru Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi líka að íhuga framboð, sem og Eyþór Arnalds. Síðar var Páll Magnússon nefndur sem mögulegur frambjóðandi.

„Ég hef ekkert íhugað þetta, enda stendur það öðrum nær að íhuga slíkt framboð í Reykjavík,“ segir Páll Magnússon, sem er þingmaður Suðurkjördæmis, í samtali við Fréttablaðið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka