Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, telur að erfitt gæti reynst að flýta landsfundi flokksins. Breyttar aðstæður ríkja í stjórnmálum í landinu eftir að slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu.
Fundurinn er fyrirhugaður dagana 3. til 5. nóvember. Síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins fór fram haustið 2015 en fundurinn er að jafnaði haldinn annað hvert ár.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi einnig frá því eftir fund sinn með forseta Íslands í dag að erfitt gæti reynst að halda landsfund fyrir kosningar, sem verða 28. október.
Að sögn Birgis þarf miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að taka ákvarðanir varðandi landsfundinn. Bjarni talaði um að fundur miðstjórnar verði næstkomandi miðvikudag en Birgir sagði að fundurinn hafi ekki enn verið boðaður.
„Tímasetning landsfundar var ákveðin fyrir löngu. Það er eðlilegt að það sé rætt um hana í ljósi þessara gerbreyttu aðstæðna,” segir Birgir.
„Miðstjórn getur tekið ákvörðun bæði um að flýta landsfundi og seinka honum. Hvað gerist í þeim efnum skýrist á fundi miðstjórnar.”
Á landsfundi fer ávallt fram kosning á formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Enginn varaformaður hefur verið starfandi í flokknum eftir fráfall Ólafar Nordal fyrr á þessu ári.
Að sögn Birgis er þó hægt að kjósa varaformann á flokksráðsfundi ef sú staða er opin. Ákvæði þess efnis er að finna í skipulagsreglum flokksins. Í flokksráði eru helstu trúnaðarenn Sjálfstæðisflokksins vítt og breitt um landið og telur sú samkoma jafnan um 600 til 700 manns á meðan um 2.000 manns mæta á landsfund.