Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að stíga til hliðar og gefa ekki kost á sér á tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í kjördæminu, þann 8. október næstkomandi, þar sem kosið verður um fimm efstu sæti á lista.
„Ég ákvað að gefa ekki kost á mér aftur til starfa á Alþingi. Ætla að gefa mér tíma til að hugsa um fjölskyldu mína í smá tíma,“ segir Elsa Lára í samtali við mbl.is.
„Ég er afar þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og hef hug á að starfa áfram fyrir Framsóknarflokkinn, en á öðrum vettvangi um sinn.“
Aðspurð hvort ákvörðun hennar tengist eitthvað því baktjaldamakki sem Gunnar Bragi Sveinsson, hinn þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að stæði yfir í kjördæminu, svarar hún því ekki beint út. „Þetta tengist bara því að ég tók þessa ákvörðun að stíga til hliðar. Það eru ýmsir þættir sem spila þar inn í,“ segir Elsa Lára, án þess að vilja fara nánar út í það.
Gunnar sagði að markvisst væri unnið að því að koma honum úr efsta sæti flokksins í kjördæminu. Hann hefði orðið þess áskynja fyrir nokkrum dögum að verið væri að útbúa lista og reyna að fá fólk til að mæta á kjördæmisþing og kjósa gegn honum.
Hafði Elsa Lára meðal annars verið hvött til að fara fram á móti honum í fyrsta sætið. „Ég fékk hvatningu um fyrsta sætið, sem mér þykir ákaflega vænt um, en ákvað að stíga til hliðar að þessu sinni og nýta krafta mína á öðrum vettvangi innan Framsóknarflokksins fái ég brautargengi til þess,“ segir hún.
Á aukakjördæmaþingi Framsóknaflokksins í Norðvesturkjördæmi sem fór fram fyrr í dag, var ákveðið fara skuli fram tvöfalt kjördæmisþing fyrir val á lista flokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar. Kjördæmisþingið fer fram á Bifröst þann 8. október næstkomandi, en þann dag verður einnig haldið aukakjördæmaþing þar sem listinn verður samþykktur.
Elsa Lára greindi frá ákvörðun sinni á Facebook fyrir skömmu.