Baldur Arnarson
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir marga framsóknarmenn „æfa“ yfir því baktjaldamakki sem nú standi yfir í Skagafirði. Það geti „stórskaðað“ flokkinn svo skömmu fyrir þingkosningar.
Gunnar Bragi segir markvisst unnið að því að koma honum úr efsta sæti flokksins í kjördæminu. Flokkurinn fékk tæplega 21% atkvæða og tvo menn kjörna í kjördæminu í þingkosningunum í fyrrahaust. Það er að sögn Gunnars Braga með betri árangri flokksins í kjördæminu.
Gunnar Bragi leiddi listann 2016, líkt og í þingkosningunum 2013. „Það er fyrir nokkrum dögum sem ég verð þess áskynja að það sé verið að útbúa lista og reyna að fá fólk til að mæta á kjördæmisþing til að kjósa gegn mér. Það sem ég geri vitanlega er að hringja í einn þessara aðila og spyrja hvort þetta sé málið. Það verður frekar fátt um svör en svo er það viðurkennt. En ég geri aldrei neinar athugasemdir við að það sé boðið fram gegn mér. Það á enginn neitt í þessu. Það sem ég geri athugasemdir við er undirferlið og að menn skuli sífellt vera að búa til einhver átök, án þess að geta horft framan í menn,“ segir Gunnar Bragi í umfjöllun um væringarnar í Framsóknarflokknum nyrðra í Morgunblaðinnu í dag.