Samþykkt var einróma tillaga stjórnar kjördæmaráðs VG í Norðvesturkjördæmi í dag að stilla upp á lista flokksins í kjördæminu fyrir komandi kosningar.
Lilja Rafney Magnúsdóttir var í efst á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, í síðustu kosningum.
Kjördæmisráð Suðvesturkjördæmis hittist í Hafnarfirði annað kvöld og verður þar tekin ákvörðun um aðferð til að velja á framboðslista fyrir komandi Alþingiskosningar. Þrjár tillögur liggja fyrir fundinum: 1. Uppstilling, 2. óbreyttur listi, 3. kjörfundur þar sem allir félagsmenn velja efstu sæti listans.
Reykjavíkurkjördæmin bæði ákváðu uppstillingu á félagsfundi í vikunni. Ákveðið var að fela fimm manna kjörnefnd að gera tillögu um lista og leggja fyrir félagsfund í byrjun október. Kjördæmisþing VG í Norðausturkjördæmi verður haldið í Mývatnssveit 1. október og stjórn kjördæmisráðs Suðurkjördæmis er að störfum.