„Ég hef alltaf stutt Sigmund Davíð“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/RAX

Formaður Framsóknarfélags Aðaldæla í Suður-Þingeyjarsýslu hyggst ganga úr Framsóknarflokknum í kjölfar ákvörðunar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns flokksins og fyrrverandi formanns hans, að segja skilið við flokkinn.

„Ég hef alltaf stutt Sigmund Davíð og mun ganga úr Framsóknarflokknum í dag og styðja hans framboð,“ segir Guðný Gestsdóttir, formaður félagsins, í samtali við mbl.is. Aðspurð segist hún vita að nokkrir félagsmanna muni gera slíkt hið sama.

Sigmundur Davíð tilkynnti í gær að hann ætlaði að ganga úr Framsóknarflokknum í kjölfar átaka sem geisað hafa innan hans. Boðar hann stofnun nýs stjórnmálaflokks sem bjóða muni fram fyrir alþingiskosningarnar 28. október.

Einar Birgir Kristjánsson hefur einnig sagt sig úr Framsóknarflokknum en hann hefur setið í stjórn Framsóknarfélags Fjarðabyggðar og í miðstjórn flokksins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hann hefur sent til fjölmiðla.

Sigmundur segir sex tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma honum frá af núverandi forystu flokksins. Fyrst sem formanni og síðan sem þingmanni Framsóknarflokksins. Hann hafi haft val um að reyna að vinna áfram með fólki sem vilji ekki vinna með honum eða yfirgefa flokkinn.

Þorgrím­ur Sig­munds­son, formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Þing­ey­inga, hafði áður tilkynnt úrsögn sína úr Framsóknarflokknum, í kjölfar ákvörðunar Sigmundar sem og Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, og Ragnar Stefán Rögnvaldsson, formaður Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík. 

Þá hafa fimm stjórnarmenn í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar sagt sig úr Framsóknarflokknum í kjölfar átakanna og telja sig ekki lengur eiga samleið með forystu flokksins þar sem enginn vilji sé til þess að ná sáttum af hennar hálfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert