„Það var okkar mat að það væri alveg galið að ætla sér í tímapressu á allra síðustu dögum fyrir kosningar að setja inn ákvæði af þessu tagi,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Á fundi formanna stjórnmálaflokkanna, sem sæti eiga á Alþingi, var í dag lögð fram hugmynd um nýja breytingartillögu við stjórnarskrá. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði á Facebook í kvöld að í tillögunni hefði falist að hægt væri að samþykkja stjórnarskrárbreytingar með auknum meirihluta á Alþingi auk þess sem 25% kosningabærra manna myndu samþykkja þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillagan hafi verið til þess fallin að miðla málum og skapa aukna samstöðu um stjórnarskrárbreytingar.
Frétt mbl.is: Sjálfstæðismenn þeir einu sem voru á móti
Sjálfstæðisflokkurinn var, einn flokka á þingi, andsnúinn þessari tillögu. Birgir bendir á að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafi nýlega lagt fram hugmyndir um að formenn flokkanna lýstu sameiginlega yfir vilja til að stjórnarskránni yrði breytt í áföngum á næstu þremur kjörtímabilum. „Það er alveg ljóst að ákvæði til bráðabirgða sem fæli í sér möguleika á breytingum á næsta kjörtímabili væri í litlu samræmi við þá áætlun,“ segir Birgir við mbl.is.
Hann segir að auk þess hafi þær hugmyndir sem uppi hafi verið um lágmarkshlutfall þingmanna, þ.e. að þrír fimmtu hlutar þingmanna gætu kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu og að 25% atkvæðabærra manna þyrftu að styðja stjórnarskrárbreytingar, væru mörk sem í hugum Sjálfstæðismanna væru allt of lág.
„Þegar svona ákvæði var samþykkt fyrir kosningarnar 2013 þá var gert ráð fyrir 2/3 hluta þingmanna og lágmarksstuðningi 40% atkvæðabærra manna – og auðvitað meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði,“ segir Birgir. Hann segir að til að stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga sé mikilvægt að um þær sé víðtækur stuðningur. „Ef áhugi á meðal kjósenda á stjórnarskrárbreytingu er lítill – af hverju á þá að breyta?“ spyr hann.