Sigmundur muni taka fylgi af Framsókn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert

Viðbúið er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson muni taka með sér eitthvað af fylgi Framsóknarflokksins eftir að hann sagði sig úr flokknum í gær. Hann á jafnframt mjög góða möguleika á því að komast á þing. Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Nokkuð af embættismönnum Framsóknarflokksins hefur sagt sig úr honum eftir að Sigmundur Davíð sagði sig úr flokknum og segir Grétar Þór ljóst að þeir ætla sér að elta hann. „Maður er ekki búinn að sjá stærðargráðuna á þessu, hvað þetta framboð getur fengið af fylgi. Það á eftir að velja á framboðslista. Við þurfum kannski að bíða í viku í viðbót til að átta okkur almennilega á stöðunni.”

Þrír þingmenn Framsóknarflokksins: Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og …
Þrír þingmenn Framsóknarflokksins: Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á þingsetningu fyrir stuttu síðan.. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fer líklega fram í Norðausturkjördæmi

Hann segir að úrsögn Sigmundar Davíðs úr flokknum hafi legið í loftinu í langan tíma. Hann hafi verið búinn að stofna eigið Framfarafélag og séð utan frá hafi hann ekki verið sýnilegur og í miklu samstarfi við flokkssystkini sín á Alþingi.

„Það er viðbúið að hann eigi góða möguleika á að komast á þing sjálfur. Líklegast myndi maður telja að hann færi fram í Norðausturkjördæmi því hann hefur verið hér í allmörg ár og hefur safnað sér svolitlu af stuðningsmönnum.  Hann þyrfti að byrja dálítið frá grunni ef hann myndi skipta um kjördæmi,” greinir Grétar Þór frá.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk úr Sjálfstæðisflokknum gæti fylgt Sigmundi

Spurður hvaða þýðingu brotthvarf Sigmundar Davíðs hafi fyrir Framsóknarflokksins segir hann viðbúið að flokkurinn tapi eitthvað á því. Fleiri flokkar gætu einnig tapað fylgi vegna brotthvarfs hans. „Þetta er náttúrlega hægra megin við miðjuna og þá er kannski helst möguleiki á að einhverjir úr Sjálfstæðisflokknum fylgi Sigmundi. Ég held að það sé miklu lengra málefnalega milli hans og Viðreisnar og eins Bjartrar framtíðar heldur en Sjálfstæðisflokksins.“

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Snúa gamlir framsóknarmenn til baka?

Grétar Þór rifjar upp þegar Albert Guðmundsson klauf sig úr Sjálfstæðisflokknum fyrir þrjátíu árum, stofnaði Borgaraflokkinn og fékk um 30% af fylgi Sjálfstæðisflokksins. „Það var alveg svakalegt skarð. Hvort þetta verði eitthvað svipað er ómögulegt að segja.”

Hann segir viðbúið að klofningur Sigmundar Davíðs úr Framsóknarflokknum verði til þess að deilur innan flokksins minnki. „Svo getur vel verið að Framsóknarflokkurinn fái einhverja gamla framsóknarmenn til baka því það voru ekki alltaf allir framsóknarmenn hrifnir á Sigmundartímanum. Maður áttar sig bara ekki á stærðargráðunni á því,” segir Grétar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert