Þorsteinn fer úr Framsóknarflokknum

Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Þor­steinn Sæ­munds­son, fyrr­ver­andi þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hef­ur sagt skilið við flokk­inn. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu sem hann hef­ur sent á fjöl­miðla en Þor­steinn sat á Alþingi fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn á ár­un­um 2013-2016 en gaf ekki áfram kost á sér í þing­kosn­ing­un­um sem fram fóru á síðasta ári.

Þor­steinn seg­ist hafa varað ein­dregið við því að farið væri í for­manns­kjör rétt fyr­ir síðustu þing­kosn­ing­ar, þar sem Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fór gegn Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni og hafði sig­ur, en á það hafi hins veg­ar ekki verið hlustað. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafi í kjöl­farið beðið sinn versta ósig­ur í 100 ára sögu hans.

Frá þeim tíma hafi lítið verið gert til þess að græða sár­in og auka sam­stöðuna. Í aðdrag­anda kosn­ing­anna 28. októ­ber hafi sá hóp­ur sem stjórni Fram­sókn­ar­flokkn­um ákveðið að ganga á milli bols og höfuðs á þeim sem orðið hafi und­ir á flokksþing­inu fyr­ir ári.

„Mark­miðið virðist vera að losa sig við fyrr­um formann flokks­ins og þá sem stutt hafa hann dyggi­leg­ast. Þetta mark­mið hef­ur tek­ist. Und­ir­ritaður hef­ur í dag til­kynnt úr­sögn sína úr Fram­sókn­ar­flokn­um, nokkuð sem ég taldi að aldrei myndi ger­ast. Ég þakka því góða fólki í Fram­sókn­ar­flokkn­um sem ég hef starfað mest með og met mik­ils fyr­ir sam­starfið og sam­ver­una og von­ast til að hitta það sem flest fyr­ir á nýj­um vett­vangi.“

Þor­steinn seg­ir í sam­tali við mbl.is að hann ætli að ganga til liðs við Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi formann Fram­sókn­ar­flokks­ins, og taka þátt í að móta það nýja stjórn­mála­afl sem Sig­mund­ur hef­ur boðað.

Fleiri fram­sókn­ar­menn hafa til­kynnt úr­sögn úr Fram­sókn­ar­flokkn­um í kjöl­far ákvörðunar Sig­mund­ar Davíðs að segja skilið við flokk­inn. Þar á meðal formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur og formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Þing­ey­inga.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert