Alþingi slitið

Þingfundi var frestað í nótt.
Þingfundi var frestað í nótt. mbl.is/Eggert

Fundum Alþingis, 147. löggjafarþings, var frestað rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Þingkosningar munu fara fram 28. október. „Þetta verður í sögubókunum meðal stystu löggjafarþinga, þó ekki það stysta,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, skömmu áður en þinginu varð formlega slitið.

Unnur Brá benti enn fremur á, að fjórir þingmenn hefðu ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi kosningum. „Allt eru þetta konur. Það er mjög umhugsunarvert,“ sagði hún og bætti við að reynslan sýndi að konur sætu almennt skemur á Alþingi en karlar.

Mikilvægt að skapa stöðugleika við stjórn landsins

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði að þingmenn og flokkar gengju nú út í kosningabaráttu í annað sinn á innan við ári. Hann sagði enn fremur að það væri eitt það mikilvægasta og vandasamasta verkefni stjórnmálaflokkanna, sem myndu fá brautargengi í komandi kosningum, að skapa stöðugleika við stjórn landsins. „Og ég vona svo sannarlega að gæfan verði okkur hliðholl í þeim efnum, landi og þjóð til heilla.“

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, þakkaði, fyrir hönd þingflokksformanna flokkanna, fyrir samstarfið á þingi, sem yrði lengi í minnum haft. „Stutt, óvenjulegt og reyndi verulega á starfsfólk Alþingis, sem á skilið sérstakar þakkir frá okkur þingmönnum.“

Ákvæði um uppreist æru afnumið

Þingið samþykkti lög um afnám uppreistar æru, kosningalög og breytingar á lögum um útlendinga er varða málsmeðferðartíma. Hart var tekist á um síðastnefnda frumvarpið í umræðum í þingsal.

Ákvæði um uppreist æru í hegningarlögum var fellt úr gildi en tillaga þess efnis var samþykkt með 55 atkvæðum. Einn greiddi ekki atkvæði og sjö voru fjarverandi. Frumvarp um lög um útlendinga var samþykkt með 38 atkvæðum gegn 17.

Með frum­varp­i um breytingar á útlendingalögum eru samþykktar tvenns kon­ar breyt­ing­ar til bráðabirgða á lög­um um út­lend­inga, sem taka til barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyr­ir gildis­töku lag­anna og hafa ekki þegar yf­ir­gefið landið.

Ann­ars veg­ar var að frest­ur verði stytt­ur úr tólf mánuðum í níu þegar kem­ur að því að taka um­sókn um vernd til efn­is­legr­ar meðferðar. Í því felst að hafi meira en níu mánuðir liðið frá því að um­sókn barns um alþjóðlega vernd barst fyrst ís­lensk­um stjórn­völd­um skuli al­mennt taka hana til efn­is­legr­ar meðferðar. 

Hins veg­ar er lagt til að frest­ur verði stytt­ur úr átján mánuðum í fimmtán þegar kem­ur að því að veita barni dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða. Í því felst að heim­ilt er að veita barni, sem sótt hef­ur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niður­stöðu í máli sínu á stjórn­sýslu­stigi inn­an fimmtán mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða, að upp­fyllt­um öðrum skil­yrðum. 

Í báðum til­fell­um væri þá talið eðli­legt að for­eldr­ar, sem fara með for­sjá barna, og systkini eft­ir at­vik­um, fái sömu meðferð, að upp­fyllt­um skil­yrðum. 

Auk þess var frumvarp um afnám uppreistar æru samþykkt. Næsta þing þarf að vinna málið frekar en borgaraleg réttindi eru hjá ýmsum stéttum háð hreinu sakavottorði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert