„Við skulum ekki gleyma því að það var leyndarhyggja og samtrygging gamla Íslands sem varð þessari ríkisstjórn að falli,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í síðustu ræðu sem hún flutti á Alþingi á tólftatímanum í gærkvöld áður en þingfundum var frestað. Birgitta gaf ekki kost á sér til endurkjörs en hún hefur setið á Alþingi frá árinu 2009.
„Það sem varð þessari ríkisstjórn að falli eins og öðrum ríkisstjórnum sem hafa fallið er að Íslendingar hafa þroskað með sér ríka siðferðiskennd og fundið henni farveg. Það er mikilvægt að hafa það í huga og það er gott veganesti fyrir alla þá sem eru nú að fara í atvinnuviðtal við þjóðina. Við erum rétt að byrja að skoða hvað er undir þessum ísjaka.“
Sagði hún spillinguna vera mikla á Íslandi og að það hefði hún skynjað í vinnubrögðum Alþingis. „Það er svo mikil spilling og maður skynjar það svo oft hérna í þingsal, í öll þessi ár sem ég hef verið hérna, það er ótrúlegt að fylgjast með vinnubrögðunum. Það er hreinlega ótrúlegt og það er ömurlegt að fylgjast með vinnubrögðunum hérna.“
Birgitta sagði að enn og aftur væri verið að skítamixa. „Þetta allt sem við erum með hérna, þessi örfáu mál, þau eru plástrar. Við erum ekki að taka á rót vandans. Eftir öll þessi ár sem við höfum haft til þess að laga hlutina og læra af því sem var orsök og afleiðing hrunsins. Þetta hérna er bara enn ein birtingamynd þess hvernig við höfum ekki lært.“
Vísaði Birgitta til þeirra mála sem afgreidd voru í gær á Alþingi varðandi breytingar á útlendingamálum og almennum hegningarlögum vegna uppreist æru. Sagðist hún ekkert hafa séð eða heyrt sem veitt hafi henni von um að hlutirnir væru að fara að lagast. Með sama áframhaldi myndu ríkisstjórnir halda áfram að falla á Íslandi.
„Við erum þingmenn. Við berum mikla ábyrgð. Við vorum valin af þjóðinni til að gæta þeirra hagsmuna. Okkur var treyst fyrir því að gæta hagsmuna almennings og við höfum ítrekað brugðist því trausti, ítrekað. Og finnst ykkur þetta í lagi? Mér finnst þetta ekki í lagi. Ég veit að mörgum ykkar finnst þetta ekki í lagi. En hvað ætlið þið að gera í því?“
Birgitta sagðist ekki vita hversu oft hún hafi flutt þessa sömu ræðu og það væri einmitt ein af ástæðunum fyrir því að hún gæfi ekki aftur kost á sér til setu á Alþingi væri einmitt sú að hún hefði séð að hún gæti ekki breytt hlutnum innan þingsins. Það væri nákvæmlega enginn vilji til þess. Fólk lofaði öllu fögru en enginn vilji væri til að laga neitt.
Ræðu Birgittu í heild má sjá hér fyrir neðan: