Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum. Gunnar Bragi greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. „Eftir að hafa ráðfært mig við fjölskyldu og vini hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka. Ég hef jafnframt ákveðið að segja mig úr Framsóknarflokknum.“
Í færslunni greinir Gunnar Bragi frá því, að nú sé svo komið „að hreinlyndið er á undanhaldi í flokknum mínum. Einhver annarleg öfl virðast hafa tekið forystu í flokknum, öfl sem ég hef líklega ekki verið nógu undirgefinn. Kafbátahernaður er stundaður.“
Hann segir enn fremur, að Framsóknarfélagið sé klofið og hann sjái að fólki sé skipt í fylkingar.
„Gamla góða vinalega kveðjan er í sumum tilfellum orðin í besta falli kurteisisleg. Þetta á ekki að vera svona, þetta þarf ekki að vera svona. Öllu þessu mátti forða hefðu menn hlustað eða komið hreint fram. Því miður er það nú að rætast sem ég og fleiri vöruðum við og ég sagði við marga vini mína síðla sumars 2016 í upphafi innanflokksátakanna.
Þegar svona er komið þá veltir maður framtíðinni fyrir sér. Vil ég vinna í þessu umhverfi? Get ég unnið með fólki sem starfar með þessum hætti eða lætur það viðgangast? Ég hef undanfarið hitt eða hringt í fjöldann allan af frábæru fólki sem ýmist hvetur mig til að taka slaginn, „ekki láta þá komast upp með þetta“ eða þá að það hvetur mig til að draga mig í hlé vegna ástandsins í flokknum.
Þegar ég rita þetta þá sit ég með hnút í maganum enda ekki létt að hverfa á braut. Eflaust gæti ég unnið forsystusætið en hvað er unnið með því ef samstarfið verður óbærilegt? Er heiðarlegt að bjóða sig fram vitandi að allar líkur eru á að maður myndi hrökklast úr þingflokknum?
Eftir að hafa ráðfært mig við fjölskyldu og vini hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka. Ég hef jafnframt ákveðið að segja mig úr Framsóknarflokknum.
Hef ég upplýst formann Kjördæmissambands framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi auk formanns og varaformanns Framsóknarflokkins um þetta.“
Þá segir Gunnar Bragi að það sé ekki ljóst hvað hann muni gera í framhaldinu. Hann kveðst enn fremur ekki ætla að ræða við fjölmiðla í dag.