Fylgi Framsóknarflokksins í nýrri skoðanakönnun MMR er vonbrigði að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns flokksins. Hann segir þá vera eftirsjá að Gunnari Braga Sveinssyni sem öflugum samherja í pólitík, en Gunnar Bragi tilkynnti nú undir hádegi að hann væri hættur í Framsókn.
„Okkur þykja þetta vera vonbrigði, en það var svo sem ljóst að það væri á brattann að sækja miðað við fréttaflutning af nýju framboði síðustu daga,“ segir Sigurður Ingi um skoðanakönnunina í samtali við mbl.is. Framsóknarflokkurinn hafi hins vegar ekki enn hafið sína kosningabaráttu. „Menn eru að manna lista og ganga frá slíku og við lítum bara á þetta sem tækifæri til þess að snúa bökum saman og berjast á fullu. Ná þannig vopnum okkar að nýju og kynna sterka málefnastöðu og sterka stöðu flokksins.“
Sigurður Ingi segir samstöðu ríkja meðal framsóknarmanna eftir útgöngu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem tilkynnt hefur stofnun nýs flokks. „Ég hef verið á nokkrum fundum þessa vikuna, sem á hafa verið staddir milli 80 og 100 manns, og það hefur verið gríðarlega jákvæður andi og samheldni.“ Menn séu tilbúnir að taka saman höndum og ná góðum árangri í kosningunum.
„Við teljum það vera landi og þjóð fyrir bestu,“ segir hann. Það sé mikilsvert að Framsóknarflokkurinn sé sterkur og öflugur flokkur.
Spurður hvort mikil hreyfing hafi verið á fylgi Framsóknar undanfarna daga kveðst hann ekki hafa á hreinu hversu margir hafi sagt sig úr flokknum. „Það hefur verið hreyfing, fólk hefur gengið úr flokknum eins og hefur komið fram í fjölmiðlum, en það hefur líka fólk gengið í flokkinn að nýju sem gekk úr honum áður.“ Þá sé ekki síður jákvætt að í flokkinn hafi einnig bæst nýtt fólk sem ekki hafi áður verið í Framsókn.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tilkynnti á facebooksíðu sinni nú undir hádegi að hann ætlaði að segja skilið við Framsóknarflokkinn. Sigurður Ingi segir að sér hafi verið kunnugt um þá ákvörðun. „Mér var kunnugt um að Gunnar Bragi vildi draga sig út úr baráttunni og hætta. Eins og ég hef sagt áður, þá er alltaf eftirsjá að öflugum samherjum úr pólitík og ég óska honum bara hins besta á nýjum vettvangi hver sem hann nú verður.“
Hann segir uppröðun á lista Framsóknar vera á fullu og segir hana ganga almennt nokkuð vel. Ljóst er að þrír þingmenn flokksins munu ekki bjóða sig fram fyrir hann á næsta kjörtímabili, en auk þeirra Sigmundar Davíðs og Gunnars Braga hefur Eygló Harðardóttir tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér.
Sigurður Ingi segir því ljóst að töluverð breyting verði á þingmannaliði flokksins. Hann kveðst þó ekki eiga von á fleiri breytingum. „Það verður þó bara að koma í ljós,“ segir hann. „Það er núna sem menn eru að stilla upp á lista með mismunandi hætti í mismunandi kjördæmum og það getur sjálfsagt haft einhver áhrif. Það er bara hin lýðræðislega leið.“