Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður, og Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og leikkona, munu leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í komandi alþingiskosningum. Framboðslistar flokksins voru samþykktir á fundi á Reykjavík Natura í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.
Helga Vala leiðir listann í Reykjavík norður en í 2. sæti á eftir henni situr Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar. Sat hann á þingi frá árinu 2013 til 2016 fyrir flokkinn.
Ágúst Ólafur leiðir í Reykjavík suður og á eftir honum kemur Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri við Háskólann í Reykjavík. Ágúst Ólafur er fyrrverandi alþingismaður og varaformaður Samfylkingarinnar. Ágúst hefur upp á síðkastið verið aðjunkt við Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, sat í bankaráði Seðlabanka Íslands og vann um tíma hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Ágúst Ólafur hefur hlotið viðurkenningu Barnaheilla fyrir að vinna sérstök störf í þágu barna og hafa með störfum sínum bætt réttindi og stöðu barna. Ágúst er lögfræðingur og hagfræðingur að mennt.
Helga Vala Helgadóttir er héraðsdómslögmaður og leikkona auk þess sem hún er umboðsmaður rokkhljómsveitarinnar Mammút. Helga Vala starfaði um árabil á fjölmiðlum þar sem hún sinnti dagskrárgerð af ýmsum toga áður en hún sneri sér að fullu að lögmennsku en hún er eigandi Völvu lögmanna. Í lögmannsstörfum sínum hefur Helga Vala meðal annars sinnt réttargæslu fyrir brotaþola kynferðisbrota, sinnt mannréttindamálum og málefnum útlendinga, barna- og fjölskyldurétti auk annars.Síðustu ár hefur Helga Vala sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, meðal annars setið í stjórn Félags íslenskra leikara, í Þjóðleikhúsráði og Höfundarréttarráði. Árin 2009-2010 var Helga Vala formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Tengsla hjá Háskólanum í Reykjavík en þar hefur hún starfað síðastliðin sex ár. Þar áður starfaði Jóhanna Vigdís sem framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík, sem markaðsstjóri Borgarleikhússins og sem forstöðumaður markaðsmála Straums-Burðaráss fjárfestingabanka. Jóhanna Vigdís er menntuð í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, með MSc-gráðu í menningarfræði frá Edinborgarháskóla og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Í störfum sínum undanfarin ár hjá Háskólanum í Reykjavík hefur Jóhanna Vigdís lagt höfuðáherslu á uppbyggingu alþjóðlegs samstarfs og verkefni sem snúa að því að auka veg stúlkna og kvenna í tæknigreinum.
Páll Valur Björnsson er fyrrverandi alþingismaður og sat áður í bæjarstjórn Grindavíkur. Páll Valur er menntaður grunnskólakennari og starfar nú sem kennari við Fiskvinnsluskólann í Grindavík en hefur áður meðal annars sinnt kennslu í Grunnskóla Grindavíkur og Njarðvíkurskóla. Páll Valur lagði í þingstörfum sínum mikla áherslu á mannréttindi, velferðarmál og ekki síst á málefni barna. Páli Vali voru á síðasta ári veitt Barnaréttindaverðlaun ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og ráðgjafarhóps umboðsmanns barna fyrir óþreytandi baráttu sína fyrir hagsmuni barna, ekki síst þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu.
Listarnir í heild:
Reykjavík suður:
Reykjavík norður: