Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, ofgreiddi skatta vegna félags síns Wintris. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar en nefndin kvað upp úrskurð sinn 22. september síðastliðinn. Úrskurðurinn var birtur fyrir helgi, segir í frétt Fréttablaðsins í dag.
Í úrskurðinum segir að 16. maí 2016 hafi Anna Sigurlaug farið þess á leit við ríkisskattstjóra að framtöl hennar fyrir árin 2011 til og með 2015 yrðu leiðrétt. Hefði hún lagt Wintris til lánsfé til fjárfestinga, en skuld félagsins við Önnu nam í upphafi árs 2010 rúmum 1,1 milljarði króna, á árinu 2008 og samanstæðu eignir félagsins af hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum, markaðsverðbréfum og innlánum í banka.
Á skattframtölum Önnu hefðu eignir skráðar á Wintris verið taldar fram sem eignir hennar og eignir félagsins því taldar fram sem fjármagnstekjur.
„Um áramót barst niðurstaða þar sem ríkisskattstjóri fór nýja leið við útreikning skattstofna (auk þess sem leiðrétt var fyrir síðbúinni innheimtu skuldar við félagið sem talin hafði verið töpuð og hafði ekki skilað sér til hins skilvísa skattgreiðanda Wintris). Þetta fól í sér nokkra hækkun skattstofns. Það sem skipti þó meira máli var að ljóst þótti að ekki hefði verið gerð tilraun til skattaundanskots. Fyrir vikið þurfti ekki að greiða álag af viðbótarupphæðinni,“ segir Sigmundur Davíð í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Í niðurstöðu ríkisskattstjóra var erindi Önnu tekið til greina að hluta en ekki var fallist á færslur vegna gengisbreytinga. Þýddi það að uppsafnað ónotað tap Wintris varð rúmar 50 milljónir í stað rúmra 162 milljóna. Anna greiddi sína skatta, tæpar 25 milljónir, með fyrirvara, í samræmi við niðurstöðuna en kærði hana áfram til yfirskattanefndar.
Grein Sigmundar Davíðs og frétt Fréttablaðsins
Hér er hægt að lesa úrskurðinn í heild