Undirbýr málsókn gegn fjölmiðlum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Miðflokksins, íhugar málsókn gegn þremur íslenskum fjölmiðlum vegna umfjöllunar um fjármál hans og eiginkonu hans í svonefndu Wintris-máli. Hann hafi fyrir nokkru falið lögfræðingum að kanna grundvöll slíkrar málsóknar.

„Það verður að bíða fram yfir kosningar en undirbúningsvinnan er hafin. Því það eru takmörk fyrir því hvað maður getur lengi setið undir hreinum ósannindum,“ segir Sigmundur Davíð.

„Sumir halda áfram og kunna ekki að skammast sín og slá upp fyrirsögnum sem eru hrein lygi, eins og ég hef séð á netinu í dag [í gær]. Ég hef því ákveðið að fylgja málum eftir og hef sett mig í samband við lögfræðinga til þess að kanna rétt minn gagnvart þessum aðilum. Það verður að bíða fram yfir kosningar en undirbúningsvinnan er hafin. Því það eru takmörk fyrir því hvað maður getur lengi setið undir hreinum ósannindum, áróðri sem er farinn út fyrir öll mörk, ekki bara velsæmismörk, heldur mörk alls sem á nokkuð skylt við sannleikann,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali við Morgunblaðið á heimili sínu í Garðabænum síðdegis í gær. Hafði hann þá í mörg horn að líta vegna stofnunar Miðflokksins.

 Fór fram á afsökunarbeiðni

Sigmundur Davíð segir málsóknirnar hafa verið lengi í bígerð.

„Ég var alltaf að vonast til þess að menn sæju að sér eftir því sem málin skýrðust [í Wintris-málinu]. Ég skrifaði til dæmis útvarpsstjóra opið bréf og fór fram á afsökunarbeiðni frá Ríkisútvarpinu á sínum tíma. Því var svarað með tómum skætingi. Það var augljóst af svarinu að bréfið hafði ekki einu sinni verið lesið. Þess í stað var sent út endurunnið svar sem fréttastjórinn hafði notað skömmu áður. Auðvitað gengur ekki að svona stór og mikilvæg stofnun, sem er haldið uppi af skattgreiðendum, komist upp með svona framgöngu án þess einu sinni að vera reiðubúin að skoða málið, hvað þá að biðjast afsökunar. Við höfum séð fleiri dæmi um það að undanförnu að þar á bæ virðist mönnum algjörlega fyrirmunað að biðjast afsökunar á nokkrum hlut.“

 Nafngreinir ekki fjölmiðlana

Wintris-málið var hluti af umfjöllun um gögn sem lekið var frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca á Panama. RÚV, Kjarninn og Stundin unnu úr þeim gögnum í samvinnu við Reykjavík Media. Spurður hvort hann eigi við RÚV, Kjarnann og Stundina svarar Sigmundur Davíð að um sé að ræða þrjá fjölmiðla. Hann ætli að láta það vera að nafngreina þá að sinni.

Sigmundur Davíð byrjaði fyrr á þessu ári að rita bók um baráttu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við vogunarsjóði. Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir hann fulltrúa sjóðanna hafa boðið honum ríkulega umbun fyrir að taka eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni Íslands.

„Ég fékk að heyra það nokkrum sinnum að ef ég féllist á niðurstöðu sem væri ásættanleg fyrir alla myndi vera nóg til skiptanna,“ segir Sigmundur Davíð og tekur dæmi af boði um leynifund í kanadískum bjálkakofa. Þar hafi fulltrúar vogunarsjóða ætlað að freista hans.

Sigmundur Davíð segir hundruð manna vinna að framboði Miðflokksins. Þá ekki aðeins fólk úr Framsókn. Margir sýni áhuga á framboði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert