Úrskurðurinn hafi almennt fordæmisgildi

Ásmundur telur harla ólíklegt að Sigmundur hefði óskað eftir leiðréttingu …
Ásmundur telur harla ólíklegt að Sigmundur hefði óskað eftir leiðréttingu á skattframtölum ef ekki hefði verið ljóstrað upp um Wintris. mbl.is/Golli

Aðjúnkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur í skattarétti segir erfitt að meta hvaða afleiðingar úrskurður yfirskattanefndar varðandi skattgreiðslur vegna félagsins Wintris, sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og stofnanda Miðflokksins, hefur fyrir þau hjónin persónulega, enda sé skattbreytingaseðill ekki birtur með úrskurðinum. Úrskurðurinn mun hins vegar hafa almennt fordæmisgildi fyrir aðra í svipaðri stöðu því nefndin er æðsti úrskurðaraðili í skattamálum á stjórnsýslusviðinu.

Að mati Ásmundar G. Vilhjálmssonar, aðjúnkts við Háskóla Íslands og sérfræðings í skattarétti, skiptir það hins vegar ekki mestu máli.

„Forkastanlegt af manni í hans stöðu“

„Mestu máli skiptir að hann stofnaði þarna félag, hann duldi tilvist þess, taldi fram með röngum hætti og svo þegar hann var tekinn í bólinu þá var allt sett á fullt að skila inn nýjum skattframtölum. Þannig er það bara,“ segir Ásmundur og vísar þar til Sigmundar. En hann neyddist til að segja af sér sem forsætisráðherra eftir að ljóstrað var upp um aflandsfélagið Wintris, í hans í eigu, í umfjöllun um Panamaskjölin í apríl á síðasta ári. Sigmundur var helmingseigandi félagsins um tíma en það er nú 100 prósent í eigu konu hans, Önnu Sigurlaugar. Sigmundur hefur ávallt haldið því fram að eiginkona hans hafi greitt sína skatta, en hún keypti mann sinn út úr félaginu á einn Bandaríkjadal árið 2009.

Árið 2010 tóku gildi hér á landi lög til höfuðs af­l­ands­fé­lög­um sem kveða á um að tekj­ur er­lendra fyr­ir­tækja í lág­skatta­ríkj­um beri að skatt­leggja hjá eig­end­um þeirra. 

Ásmundur telur harla ólíklegt að Sigmundur og Anna Sigurlaug hefðu óskað eftir leiðréttingu á skattframtölum sínum nema vegna þess að upp komst um tilvist félagsins á Bresku Jómfrúreyjunum.

„Hann hefði aldrei farið að óska eftir endurákvörðun á opinberum gjöldum ef þetta hefði ekki legið fyrir. Honum er eiginlega ýtt fram af bjarginu. Þetta er auðvitað forkastanlegt af manni í hans stöðu,“ segir Ásmundur.

Deilt um skattlagningu þeirra hjóna

Blaðamaður fékk hann til að fara yfir úrskurð yfirskattanefndar á mannamáli, hvað hann þýðir og jafnframt aðdraganda málsins.

„Í þessu máli er deilt um skattlagningu þeirra hjóna Sigmundar og konu hans, vegna eignarhalds á félagi á Bresku Jómfrúareyjunum. Um er að ræða lágskattasvæði sem þýðir að skattarnir eru töluvert lægri en hér á landi. Þeir sem stofna fyrirtæki í slíkum ríkjum eru væntanlega að gera það til þess að komast hjá því að borga jafn háa skatta og eru við líði í þeirra heimalandi.“

Anna Sigurlaug keypti hlut Sigmundar í Wintris á einn Bandaríkjadal …
Anna Sigurlaug keypti hlut Sigmundar í Wintris á einn Bandaríkjadal árið 2009. mbl.is/Eva Björk

Ásmundur segir lögin kveða svo á um að þegar málum er þannig háttað þá skuli tekjur og gjöld félagsins gerð upp eins og um íslenskt fyrirtæki sé að ræða. „Það gilda sömu reglur og myndu gilda hér á landi. Síðan er hlutdeild í þessum hagnaði talin til tekna, mismunur á heildargjöldum og heildartekjum, miðað við eignarhlut í félaginu. Ef þú átt 100 prósent hlut í félaginu þá ber að skattleggja 100 prósent af hagnaðnum hér á landi, eins og væri um að ræða atvinnurekstrartekjur,“ útskýrir hann.

„Í þessu máli er ágreiningur um uppgjör og útreikning á gengishagnaði og tapi. Ríkisskattstjóri fellst ekki á að það beri að reikna gengishagnað og tap. Af lestri úrskurðarins fær maður það á tilfinninguna að það stafi af því að það eigi eingöngu að yfirfæra afkomuna, eða hagnaðinn. Yfirskattanefnd segir hins vegar svo ekki vera. Félagið sem um ræðir lúti íslenskum skattareglum og það nær yfir allan pakkann, ekki bara eitthvað í pakkanum.“

Úrskurðurinn er staðfesting á lögunum

Ásmundur rifjar upp atburðarrásina sem fór af stað byrjun apríl í fyrra þegar greint hafði verið frá tilvist Wintris í fjölmiðlum. „Í framhaldinu, eða 13. maí, þá ritaði Sigmundur ríkisskattstjóra bréf og óskaði eftir endurákvörðun á sínum gjöldum, frá árinu 2011 til 2016. Það er fallist á það á öllu leyti nema að því varðar þennan gengishagnað og gengistap.“

Anna Sigurlaug kærði því niðurstöðu ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar sem komast að annarri niðurstöðu og var úrskurðurinn birtur þann 22. september síðastliðinn. „Úrskurðurinn sem slíkur er bara staðfesting á lögunum og hefur þar af leiðandi leiðsagnargildi fyrir aðra sem eru í svipaðri stöðu.“

Ásmundur segir þó ekki marga Íslendinga í svipaðri stöðu og Sigmundur og Anna Sigurlaug, en þeir sem eru í henni eigi rétt á að fá leiðréttingu, hafi þeim verið synjað um að yfirfæra gengishagnað og gengistap í íslenskar krónur.

„Það segir í lögum að þetta félag teljist íslenskt félag. Maður fær á tilfinninguna að þetta hafi verið einhver hugsanaskekkja hjá ríkisskattstjóra. Það er svolítið skrýtið að þeir hafi tekið þessa afstöðu því þetta er svo augljóst á lagaákvæðinu sjálfu.“

Hvað skattar hækkuðu mikið skiptir ekki mestu máli

Samkvæmt niðurstöðu yfirskattanefndar ofgreiddi Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar, skatta vegna Wintris, en það er vegna þess að hún hefur væntanlega greitt í samræmi við niðurstöðu ríkisskattstjóra, en svo ákveðið að kæra því hún var ekki sammála þeirri niðurstöðu, að sögn Ásmundar. Hann segist reikna með að skattar hafi verið hækkaðir á þau hjónin eftir úrskurð yfirskattanefndar og segir Sigmundur það í raun sjálfur í grein sem hann ritaði í Fréttablaðið í vikunni að leiðréttingar á skattframtölum hefðu falið í sér hækkun á skattstofni. Þá var einnig endurákvarðaður auðlegðarskattur sem lagður var á Önnu Sigurlaugu. Sigmundur sagði í greininni að honum hefði verið tjáð að það þættu nýmæli að skattgreiðandi sem fengi ákvarðaðan á sig skatt færi fram á að ákvörðunin yrði hækkuð.

„Kannski hækkuðu skattarnir um 100 milljónir og þau fá kannski endurgreiddar 10 milljónir. En það skiptir ekki máli í heildarniðurstöðunni,“ segir Ásmundur, en hann telur, líkt og fram hefur komið, mestu máli skipta að talið hafi verið fram með röngum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert