Stóra verkefnið alvöru stöðugleiki

Katrín Jakobsdóttir á Landsfundi Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir á Landsfundi Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Síðasta ríkisstjórn hrökklaðist frá og við heyrum skýra kröfu frá fólkinu í landinu sem vill breytta tíma, nýja ríkisstjórn sem setur hagsmuni almennings í forgang. Ísland þarf trausta ríkisstjórn sem vill gera betur fyrir fólkið í landinu og springur ekki vegna vantrausts ogleyndarhyggju löngu áður en kjörtímabilið klárast,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, í setningarræðu sinni á Landsfundi flokksins.

„Ef fólkið í landinu vill breyttar áherslur í stjórn landsins þá segjum við: Gjörið svo vel, skoðið stefnuskrá okkar og skynjið kraftinn sem býr í okkur. Þess vegna  göngum við nú til fundar við fólkið í landinu og óskum eftir umboði til að mynda góða og trausta ríkisstjórn. Við skulum vera baráttuglöð og bjartsýn; ég hlakka til að vinna með ykkur og ég hlakka svo sannarlega til að láta verkin tala eftir kosningar,“ sagði Katrín ennfremur í ræðu sinni.

Katrín sagði mikið talað um að þörf væri á stöðugleika í stjórnarfar landsins sem væri alveg rétt. „En það er nú samt þannig að þeir stjórnmálamenn sem tala hvað hæst og mest um stöðugleika eru einmitt þeir sem síst hafa efni á því. Eða hvað þykjast þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geta sagt kjósendum um pólitískan stöðugleika? Þetta er flokkurinn sem leiddi hrunstjórnina, sat í Panamastjórninni og leiddi nú síðast þá stjórn sem starfaði svo stutt að ekkert nafn hafði fundist á hana.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Óstöðugleikinn einhverjum öðrum að kenna

Spurði hún hver væri lykillinn að pólitískum stöðugleika. Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins myndu líklega svara að hann væri stórir og sterkir stjórnmálaflokkar sem þyrftu helst líka að vera gamlir og íhaldssamir.

„Óstöðugleikinn er alltaf einhverjum öðrum að kenna. Hvernig væri að líta í eigin barm? Staðreyndin er sú að pólitískur stöðugleiki á Íslandi nútímans næst ekki með gamaldags frekjupólitík. Pólitík þar sem "stórir og sterkir flokkar" berja öll mál í gegn með offorsi og yfirgangi án þess að hlusta á gagnrýni eða aðrar raddir og helst með minnsta mögulega meirihluta. Þetta er vond og úrelt hugmynd og auðvitað springur slík ríkisstjórn!“

Katrín sagði tímana vera breytta og breyttir tímar kölluðu á breytta pólitík. „Lykillinn að pólitískum stöðugleika á Íslandi nútímans er sá að breyta vinnubrögðum að koma hreint fram; að vanda stjórnsýslu; að hlusta á önnur sjónarmið af virðingu. Og umfram allt: að stjórna landinu af skynsemi og yfirvegun. Þetta er ákall almennings. Og þetta er ákall sem við Vinstri-græn ætlum að svara.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Pólitískur stöðugleiki fátækum lítils virði

VG ætlaði að bjóða upp á betri forystu fyrir Ísland og allt aðrar áherslur en boðið hafi verið upp á undanfarin fjögur ár. „Forystu sem gerir betur og getur komið á alvöru pólitískum stöðugleika. Ekki stöðugleika sem byggir á því að festa ranglæti í sessi heldur stöðugleika sem byggist á samfélagslegri sátt. Félagslegum stöðugleika.“

Hins vegar væri pólitískur stöðugleiki lítils virði ef allir innviðir væru vanræktir. Menntakerfið svelt og grafið undan heilbrigðiskerfinu. Pólitískur stöðugleiki væri fólki sem haldið væri niðri í stöðugri fátækt lítils virði. Fólki sem næði ekki saman endum um hver mánaðarmót á sama tíma og talað væri um efnahagslegan uppgang á öllum sviðum samfélagsins. Nær ekki endum saman um hver mánaðamót á sama tíma og talað er um efnahagslegan uppgang á öllum sviðum

„Stóra verkefni næstu ríkisstjórnar er að koma á alvöru stöðugleika fyrir fólkið sem býr í þessu landi. Og þegar ég segi alvöru stöðugleiki, þá á ég við öfluga uppbyggingu fyrir atvinnulífið og byggðirnar, menntakerfið og heilbrigðisþjónustuna, aldraða og öryrkja og svo mætti lengi telja.
Það er enginn stöðugleiki fólginn í því að láta innviði landsins mæta afgangi í miðju góðæri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka