„Við finnum sterkt ákall um stefnubreytingar í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna í þættinum Víglínunni á Stöð tvö í dag, spurð út í skoðanakannanir sem sýna aukið fylgi flokksins.
Katrín sagði að hagsældin sem hafi verið í landinu undanfarið ekki hafa skila sér til þjóðarinnar. Hún sagði mikilvægt að nýta góðærið til að rétta við innviðina eins og til dæmis heilbrigðiskerfið og vísaði í undirskriftalist yfir 80 þúsund manns sem skora á stjórnvöld að grípa til aðgerða í heilbrigðiskerfinu.
Staða ríkissjóðs er betri en hún hefur verið, að sögn Katrínar þar af leiðandi væri mikilvægt að innviðir grotnuðu ekki niður. Hún sagði að skattar á almenning yrðu ekki hækkaðir til að koma til móts við útgjöld ríkissjóðs ef VG færi með stjórntaumana. Hún gagnrýndi núverandi ríkisstjórn að vaxta- og barnabætur hafi verið skertar. Þetta kæmi verst niður á ungu barnafólki sem væri á sama tíma að reyna að koma þaki yfir höfuðið.
Í því samhengi sagði hún brýnt að marka sýn til lengri tíma í húsnæðismálum í samvinnu við hin ýmsu samtök á borð við Samtökum atvinnulífsins.
Katrín var spurð út í sölu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á sjóð 9 fyrir þjóðnýtingu bankanna. Hún sagði það mál minna okkur á að það er ekki hægt að hafa opnar dyr milli stjórnmálamanna og viðskipta. Almenningur verði að fá að treysta því að stjórnmálamenn taki ákvarðanir með hag almennings að leiðarljósi.
Katrín sagðist vera opin fyrir því að vinna með öðrum stjórnmálaflokkum. Spurð hvort næstu stjórnarmyndunarviðræður yrðu auðveldari en þær síðustu sagðist hún binda vonir við að reynslan frá þeim stjórnarmyndunarumræðum myndu nýtast vel á þeim tímum sem framundan væru.