Spáir VG, Pírötum og Samfylkingu í stjórn

Össur telur að þriggja flokka stjórn VG, Pírata og Samfylkingar …
Össur telur að þriggja flokka stjórn VG, Pírata og Samfylkingar sé líklegasta útkoman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Össur Skarp­héðins­son, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, spá­ir því að mynduð verði þriggja flokka rík­is­stjórn Vinstri grænna, Pírata og Sam­fylk­ing­ar, að lokn­um kosn­ing­um. Hann tel­ur nán­ast úti­lokað að tveggja flokka stjórn Vinstri grænna og Sjálf­stæðis­flokks­ins verði mynduð.

Össur skrif­ar langa færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hann spá­ir í spil­in varðandi næsta rík­is­stjórn­ar­sam­starf. Hann lík­ir Katrínu Jak­obs­dótt­ur við balle­rínu sem hafi dregið fram ball­ett­skóna og dansað fim­lega síðustu viku.

„Sér­stak­lega hef­ur hún af­greitt Sjálf­stæðis­flokk­inn fum­laust – en hik­laust. Hún lok­ar ekki á neinn en þylur svo upp stefnu­mál sem Bjarni Ben – eða hver sem verður við stjórn­völ Sjálf­stæðis­flokks­ins – munu aldrei geta samþykkt. Hún var líka fljót að kveða vinstri­stjórn­ar­skatta­grýlu Sjálf­stæðis­flokks­ins í kút­inn með því að lýsa yfir að rík­is­stjórn und­ir henn­ar for­ystu myndi ekki hækka skatta. Það er meira en Barni get­ur státað af. Hann setti Íslands­met þegar hann hækkaði tekju­skatt á einn hóp – hina allra lægst launuðu,“ skrif­ar Össur.

Össur Skarphéðinsson spáir í spilin.
Össur Skarp­héðins­son spá­ir í spil­in. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Hann seg­ir Katrínu síst af öllu langa í stjórn með Sjálf­stæðis­flokkn­um og að baklandið myndi aldrei leyfa henni það. „Jafn­vel mjög lang­vinn og djúp stjórn­ar­kreppa myndi varla opna á slíka rík­is­stjórn nema þá með ger­breyttri for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins.“

„Ekk­ert bý­flugna­bú þolir tvær drottn­ing­ar“

Össur tel­ur sam­starf við Pírata auðveld­ara en áður, nú þegar Birgitta Jóns­dótt­ir er horf­in af vett­vangi. „Menn velta vita­skuld fyr­ir sér hvort hægt sé að stóla á Pírata í rík­is­stjórn með naum­an meiri­hluta. Inn­an raða VG var greini­legt lengi vel að á því höfðu menn litla trú. Ekk­ert bý­flugna­bú þolir tvær drottn­ing­ar og það voru jafn­an litl­ar ást­ir milli Katrín­ar og Birgittu.“

Hann seg­ir Helga Hrafn Gunn­ars­son nú hafa mesta vigt inn­an Pírata og hvað sem hann sjálf­ur haldi um sig þá sé hann ekk­ert annað en sósí­al­demó­kra­tísk­ur prag­mat­isti.

„Hann er rock-solid í sam­vinnu, laus við all­ar öfg­ar, hef­ur gam­an af að vera „contr­ari­an“ í jaðar­mál­um og hef­ur sýnt að hann er óhrædd­ur við að taka á bakland­inu. VG, Sam­fylk­ing og Pírat­ar gætu mjög auðveld­lega átt góða sam­vinnu. Mér finnst lík­legt að þess­ir flokk­ar létu reyna á stjórn­ar­mynd­un jafn­vel þó meiri­hluti yrði naumt skor­inn.“

Össur seg­ir þenn­an meiri­hluta þó geta stækkað um­fram kjör­fylgi fari svo að Viðreisn og Björt framtíð nái ekki inn á þing. Hann bend­ir á að þeim mögu­leika hafi verið velt upp að Fram­sókn yrði kölluð til liðs við flokk­ana þrjá, en tel­ur hann þó fjar­læg­an, enda bendi allt til að ham­far­ir bíði Fram­sókn­ar í kom­andi kosn­ing­um og flokk­ur­inn tapi miklu fylgi.

„Balle­rín­an sem nú tipl­ar um sviðið þarf mjög að vanda sig. Hún hef­ur þegar misst af þrem­ur frum­sýn­ing­um. Full­reynt er í fjórða sinn,“ skrif­ar Össur í lok færsl­unn­ar og vís­ar þar til Katrín­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert