Sjálfstæðisflokkurinn „eins og kunnugt er fatlaður“

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Kristinn Magnússon

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og oddviti í Norðausturkjördæmi, sagði á framboðsfundi í Menntaskólanum á Akureyri í gær að Sjálfstæðisflokkurinn væri „eins og kunnugt er fatlaður.“ Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði þessum ummælum Steingríms og sagði fáránlegt að líkja einhverjum sem viðkomandi líkaði ekki við við fatlaða einstaklinga.

Myndband af ummælunum og viðbrögðum Áslaugar gengur nú á samfélagsmiðlum, en ungir sjálfstæðismenn settu myndskeiðið á Facebook-síðu sína fyrr í kvöld.

Steingrímur segir í samtali við mbl.is að hann hafi strax og hann fékk orðið aftur á fundinum beðist afsökunar á ummælunum. „Það er auðvitað rétt hjá Áslaugu að þetta var ekki rétt orðanotkun,“ segir Steingrímur.

Segir Steingrímur að efnislega hafi hann verið að vísa til þess að Sjálfstæðisflokkurinn ætti erfitt með að afla tekna fyrir ríkissjóð til að standa við stóru orðin um fjárveitingar í hin ýmsu verkefni. Slíku þyrftu alltaf einhverjar aðgerðir að fylgja. Hann ítrekaði að orðanotkunin í þessu samhengi hafi hins vegar verið röng hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert