Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, telur ekki ólíklegt að sú athygli sem Viðreisn hefur fengið vegna formannsskiptanna í gær, komi flokknum aftur inn á radar kjósenda í kosningabaráttunni. Formannsskiptin geti orðið til þess að flokkurinn fái einhverja viðspyrnu og nái að vippa sér yfir 5 prósent þröskuldinn.
Hann segir það jafnframt blasa við að verulegur þrýstingur hafi verið kominn á Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formann Viðreisnar, að stíga til hliðar. Benedikt tilkynnti um ákvörðun sína á fundi ráðgjafaráðs flokksins í gær, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var jafnframt kjörinn nýr formaður. Benedikt sagði stöðu flokksins ekki hafa verið góða í síðustu skoðanakönnunum og að huga hafi þurft að því hvernig væri hægt að bæta hana. „Ég taldi að mínir persónulegu hagsmunir þyrftu að víkja fyrir stærri hagsmunum,“ sagði Benedikt í samtali við mbl.is í gær um það af hverju hann ákvað að víkja sem formaður.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem formaður flokks stígur til hliðar vegna fylgistaps, en óvenjulegt er að það gerist í miðri kosningabaráttu.
„Það er óvanalegt að svona gerist þetta nálægt kjördegi. Það er líka þannig í stærri og rótgrónari stjórnmálaflokkum að það er yfirleitt flóknara að skipta um formenn. Það þarf lengri og viðameiri lýðræðislega aðkomu flokksmanna. Þetta er gert án nokkurs opinbers aðdraganda. Mönnum gefst ekki tækifæri til að bjóða sig fram og berjast fyrir kjöri sem formaður, heldur er bara tilkynnt um þetta. Það er auðvitað eðlismunur á því og því sem við höfum lengst af átt að venjast,“ segir Eiríkur sem telur þetta þó hafi verið að gerjast innan flokksins í töluverðan tíma.
„Auðvitað hafði maður tekið eftir einhvers konar undiröldu innan flokksins í langan tíma. Þetta er ekki eitthvað sem gerist bara í kjölfar eins viðtals eða allra seinustu fylgiskannana. Þetta er greinilega einhver ólga sem hefur verið að bruggast yfir lengri tíð.“
Benedikt sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hefði kvöldið áður ákveðið í samráði við fjölskyldu sína að víkja úr sæti formanns. Hann sagðist hafa tekið ákvörðunina sjálfur og að ekki hafi verið um að ræða þrýsting frá flokksfélögum.
„Þetta getur auðvitað hafa verið hans eigin ákvörðun en það er augljóst að það var kominn verulegur þrýstingur á hann um að taka þá ákvörðun sem hann tók. Það blasir alveg við,“ segir Eiríkur.
Viðreisn fékk rúmlega 10 prósent fylgi í síðustu kosningum og náði sjö mönnum inn á þing. Í síðustu skoðanakönnunum hefur flokkurinn verið að mælast með um 3 prósent fylgi og myndi ekki ná manni á þing. Fylgi Viðreisnar hefur í raun lækkað hægt og bítandi frá því að flokkurinn tók sæti í ríkisstjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð í byrjun þessa árs.
Eiríkur telur grundvallarskýringuna á þessu vera að þær kerfisbreytingar sem Viðreisn boðaði fyrir síðustu kosningar hafi ekki náð fram að ganga í síðustu ríkisstjórn.
„Viðreisn er stjórnmálflokkur sem er stofnaður í kringum kröfur um tilteknar, mjög skýrar, kerfisbreytingar. Það var á þeim forsendum sem flokkurinn bað kjósendur um að greiða sér atkvæði sitt. Þeir fara síðan í ríkisstjórn þar sem nokkuð augljóst er að obbinn af þessum kerfisbreytingum mun ekki ná fram að ganga. Þetta skapar eðlilega ákveðið óþol meðal sumra kjósenda flokksins.“
Eiríkur bendir á að Viðreisn sé nýr flokkur og fólk hafi því ekki jafn rótgróna tengingu við hann. „Það er allt öðruvísi, en ef þú hefur fylgt einhverjum stjórnmálaflokki að málum yfir langa tíð, þá kannski fyrirgefurðu honum meira það sem er að gerast akkúrat í augnablikinu. Ef þú ert í nýjum flokki þá er ekkert annað til en líðandi stund.“
Eiríkur telur málefnastöðu flokksins vera þannig að hann ætti að geta höfðað til stórs hóps kjósenda. Aðrir flokkar séu þó einnig að berjast á sama velli.
Eiríkur segir enga leið að segja til um hvort eða hvaða áhrif formannaskipti í flokknum komi til með að hafa á fylgi flokksins. Hann er þó tilbúinn að gera grein fyrir sínum vangaveltum.
„Ég held að þetta gæti orðið til þess að flokkurinn fengi einhverja viðspyrnu. Staðan er sú að flokkar sem mælast undir 5 prósent þröskuldinum eiga erfitt uppdráttar því fólk vill ekki kasta atkvæði sínu á glæ. Þetta gæti orðið til þess, sérstaklega umfjöllunin sem flokkurinn hefur fengið í kjölfarið af þessari vendingu, að flokkurinn fái einhvers konar viðspyrnu og nái með þessari fléttu að vippa sér upp fyrir 5 prósent þröskuldinn í skoðanakönnunum fljótlega. Þá getur það orðið til þess að flokkurinn komi aftur inn á radar kjósenda og geti þar af leiðandi haldið sér inni í baráttunni, sem hann var hálfpartinn dottinn út úr. Hvort þetta hins vegar gerist, það vitum við ekki.“
Þá segir Eiríkur Þorgerði Katrínu mun þekktari stærð í stjórnmálum heldur en Benedikt. Hún sé forystumaður sem fólk eigi auðveldara með að átta sig á hvar standi, í ljósi sögunnar. Þar fyrir utan sé hún feykilega reynslumikill stjórnmálamaður. „Það hefur komið í ljós í þessari kosningabaráttu að reynslulitlir forystumenn geta átt erfitt uppdráttar. Hún er reynslumikil og kraftmikil og það er alveg mögulegt að flokkurinn fái þá viðspyrnu sem dugar til að komast aftur inn í baráttuna sem var hálfpartinn töpuð áður en þessi flétta fór fram,“ segir Eiríkur. Hann tekur þó fram að hann sé ekki að spá fyrir um að þetta gerist. Þessi atburðarrás kæmi honum hins vegar ekki á óvart.
Hann segir umfjöllunina sem skapast hefur um Viðreisn vegna formannsskiptanna vekja athygli á flokknum og hans málefnum. „Þetta er í aðra röndina bara barátta um athyglina. Athyglin var horfin af flokknum en þeir unnu hana að einhverju leyti til baka. En hvort það dugir, verður að koma í ljós.“