Formenn yfirkjörstjórna í kjördæmunum sex búast við að framboð þeirra flokka sem skiluðu inn framboðslistum í gær verði samþykkti í dag, að framboðslistum Íslensku þjóðfylkingarinnar undanskilinna.
Kjörstjórnir gerðu athugasemdir við undirskriftir framboðslistanna og hefur Íslenska þjóðfylkingin dregið alla fjóra framboðslista sína til baka.
Frétt mbl.is: Íslenska þjóðfylkingin býður ekki fram
Yfirkjörstjórn fundar í dag og fer yfir hvort einhverjir gallar eru á framboðunum sem borist hafa til alþingiskosninganna. Finnist gallar er umboðsmönnum lista gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni. Blaðamaður mbl.is ræddi við formenn allra yfirkjörstjórna sem búast ekki við að frekari gallar finnist á framboðslistunum eftir að Íslenska þjóðfylkingin dró lista sína fjóra til baka.
Þeir flokkar sem eiga sæti á Alþingi bjóða fram í öllum kjördæmum ásamt Miðflokknum og Flokki fólksins. Alþýðufylkingin býður fram í fjórum kjördæmum, en Dögun býður aðeins fram í Suðurkjördæmi.
Öll níu framboð sem bárust í Norðvesturkjördæmi hafa verið samþykkt. Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi staðfestir það í samtali við mbl.is.
Yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi mun funda ásamt umboðsmönnum framboðslista í Hofi á Akureyri klukkan 16 í dag. Að fundinum loknum mun yfirkjörstjórnin kveða upp úrskurð sinn. Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi segir í samtali við mbl.is að ekki sé von á neinum óvæntum tíðindum þegar yfirkjörstjórnin kemur saman í dag.
„Við úrskurðuðum 10 gild framboð en gerðum alvarlegar athugasemdir við framboð Íslensku þjóðfylkingarinnar og þeir drógu framboð sitt til baka í gærkvöldi,“ segir Ólafía Ingólfsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi. Athugasemdirnar voru þær sömu og yfirkjörstjórnir í Reykjavík gerðu, það er að um sömu rithönd væri að ræða á undirskriftarlistum framboðslistanna.
Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi fundar nú í hádeginu þar sem farið verður yfir úrskurðargildi framboðanna, að sögn Ástríðar Grímsdóttur, formanni yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi.
Fundir yfirkjörstjórna í Reykjavíkurkjördæmunum fara fram klukkan 13:30 og 14 í dag. „Við erum ekki búin að ljúka yfirferðinni að fullu,“ segir Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Á fundinum vonast hún til að hægt verði að afgreiða þau 10 framboð sem eru til meðferðar hjá kjörstjórninni.