Yfirkjörstjórnir munu taka ákvörðun í næstu viku um hvernig bregðast skuli við vegna gruns um falsaðar undirskriftir á meðmælendalistum Íslensku þjóðfylkingarinnar. Formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis segir málið verulega alvarlegt.
„Við erum ekki búin að taka ákvörðun um framhaldið vegna þess að einn kjörstjórnarmaður þurfti að fara erlendis í nótt. Við munum því ekki geta gert neitt fyrr en eftir mánudag,“ segir Ólafía Ingólfsdóttir formaður.
Yfirkjörstjórnir gerðu athugasemdir við undirskriftir framboðslistanna og hefur Íslenska þjóðfylkingin dregið alla fjóra framboðslista sína til baka. Athugasemdirnar sneru að því að um sömu rithönd væri að ræða á undirskriftarlistum framboðslistanna.
„Við erum ekki búin að meta umfangið en sú vinna sem við lögðum í þetta í gær sýndi að málið er verulega alvarlegt,“ segir Ólafía og bætir við að tilfellin séu alltof mörg. „Við gerðum prófanir og tókum stikkprufur og þá kom í ljós að fólk kannaðist ekki við að hafa skrifað undir.“
Sambærilegt mál kom upp í aðdraganda forsetakosninganna 2012 en þá vísuðu yfirkjörstjórnir meintum fölsunum á undirskriftum á meðmælendalistum Ástþórs Magnússonar, forsetaframbjóðanda, til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þremur árum síðar var málið fellt niður.