X-S er hástökkvari vikunnar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar hef­ur tvö­fald­ast und­an­farn­ar tvær vik­ur, Vinstri­hreyf­ing­in – grænt fram­boð er stærsti flokk­ur lands­ins og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er næst­stærst­ur. Þetta sýna niður­stöður nýrr­ar könn­un­ar sem Fé­lags­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands gerði fyr­ir Morg­un­blaðið dag­ana 9.-12. októ­ber.

Ef gengið yrði til kosn­inga núna fengi VG 27,4% at­kvæða og 19 þing­menn kjörna, Sjálf­stæðis­flokk­ur fengi 22,6% og 16 þing­menn og Sam­fylk­ing­in fengi 15,3% og 11 þing­menn.

Fjöldi þingmanna ef þetta verður niðurstaða kosninganna.
Fjöldi þing­manna ef þetta verður niðurstaða kosn­ing­anna. Korta­deild Morg­un­blaðsins

Pírat­ar mæl­ast með 9,2% fylgi og sex þing­menn og Flokk­ur fólks­ins með 6,5% og fjóra þing­menn. Miðflokk­ur­inn fengi sömu­leiðis fjóra þing­menn, en flokk­ur­inn mæl­ist með 6,4% fylgi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn mæl­ist með 5,5% og þrjá þing­menn, fylgi Viðreisn­ar mæl­ist 3,4%, sem myndi ekki skila nein­um þing­manni, og Björt framtíð myndi sömu­leiðis ekki ná inn manni með 2,6% fylgi. Önnur fram­boð, sem nefnd voru í svör­un­um, voru Dög­un, Alþýðufylk­ing­in og Íslenska þjóðfylk­ing­in, sem mæl­ast með 0,2-0,4% fylgi. Þá svöruðu 0,2% svar­enda því til að þau myndu kjósa ann­an flokk eða lista.

Niðurstaða skoðanakönnunar um fylgi flokkanna.
Niðurstaða skoðana­könn­un­ar um fylgi flokk­anna. Korta­deild Morg­un­blaðsins

Ris, fall eða kyrrstaða

Sé tekið mið af síðustu könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar fyr­ir viku, stend­ur fylgi Pírata og Fram­sókn­ar­flokks­ins nán­ast í stað og það sama má segja um Viðreisn og Bjarta framtíð. Fylgi VG er einnig svipað og í síðustu viku.

Fylgi Miðflokks­ins og Flokks fólks­ins minnk­ar um u.þ.b. þriðjung frá því fyr­ir viku og fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem hafði dalað tals­vert á milli kann­ana, hef­ur nú auk­ist lít­il­lega frá síðustu könn­un.

Há­stökkvari vik­unn­ar er óum­deil­an­lega Sam­fylk­ing­in. Fylgi flokks­ins mæld­ist 10,8% í síðustu könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar fyr­ir Morg­un­blaðið. Í vik­unni þar á und­an var það 7,5% og í síðustu kosn­ing­um fékk flokk­ur­inn 5,7% at­kvæða, eða um þriðjung þess fylg­is sem flokk­ur­inn mæl­ist nú með.

Mun­ur eft­ir bú­setu og kyni

Áhuga­vert er að skoða hvernig at­kvæði skipt­ast eft­ir bú­setu fólks. Til dæm­is ætla 28% íbúa á höfuðborg­ar­svæðinu að kjósa VG, 25% sem þar búa ætla að kjósa Sjálf­stæðis­flokk­inn, en aðeins 2% íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins ætla að kjósa Fram­sókn­ar­flokk­inn og 4% Miðflokk­inn.

Þegar horft er til lands­byggðar­inn­ar horf­ir dæmið nokkuð öðru vísi við. Þar ætla 12% að kjósa Fram­sókn og 10% Miðflokk­inn. 25% lands­byggðar­inn­ar ætla að kjósa VG og 23% Sjálf­stæðis­flokk. Jafn­hátt hlut­fall íbúa höfuðborg­ar­svæðis og lands­byggðar ætl­ar að kjósa Flokk fólks­ins og fylgi flokk­anna á milli landsvæða er sömu­leiðis áþekkt hjá Pír­öt­um. Ein­ung­is 2% kjós­enda á lands­byggðinni ætla að kjósa annaðhvort Viðreisn eða Bjarta framtíð.

Fylgi flokk­anna er býsna mis­mun­andi á milli karla og kvenna. 27% karla og 23% kvenna ætla að kjósa Sjálf­stæðis­flokk­inn. Fylgi Miðflokks­ins er þris­var sinn­um meira meðal karla en kvenna og á móti hverj­um fimm körl­um sem ætla að kjósa Pírata eru tvær kon­ur. Tvö­falt hærra hlut­fall karla en kvenna ætl­ar að kjósa Viðreisn. Dæmið snýst svo við meðal þeirra sem ætla að kjósa VG þar sem hlut­fall kvenna er rúm­lega tvö­falt á við karla. Fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar skipt­ist nán­ast jafnt á milli karla og kvenna og það sama má segja um Flokk fólks­ins og Bjarta framtíð.

Ýmsir mögu­leik­ar á stjórn

Verði þetta niður­stöður alþing­is­kosn­ing­anna 28. októ­ber verður stjórn Sjálf­stæðis­flokks og VG eini mögu­leik­inn á tveggja flokka stjórn, en sam­tals mæl­ast flokk­arn­ir nú með 35 þing­menn.

VG og Sam­fylk­ing­in, sem sam­tals yrðu með 30 þing­menn, gætu til dæm­is myndað þriggja flokka stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um, Miðflokkn­um, Pír­öt­um eða Flokki fólks­ins.

Könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar náði til 1.000 manna net­úr­taks og 1.200 síma­úr­taks. Fjöldi svar­enda var 1.250; 713 á neti og 537 í síma. Þátt­töku­hlut­fall var 58%.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert