Meðal þess sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fyrir þingkosningarnar 28. október er að 100 milljörðum króna verði varið í innviðauppbyggingu sem teknir verði úr bönkum í eigu ríkisins í gegnum sérstakar arðgreiðslur á næstu árum. Fjármagnið komi til viðbótar við áður áætlaðar framkvæmdir í nauðsynlegar innviðafjárfestingar til þess að bæta vegina og styrkja samgöngur um allt land sem og í heilbrigðis- og menntakerfinu.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum þar sem helstu áherslur flokksins eru kynntar. Þar kemur ennfremur fram að setja eigi á fót Þjóðarsjóði í þágu komandi kynslóða sem arður af orkuauðlindum landsins sem eru í eigu ríkisins færi í. Sjóðurinn yrði sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið og hluti hans nýttur í samfélagsverkefni.
Einnig er lögð áhersla á að allir njóti heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, lækka neðra skattþrepið niður í 35% og lækka tryggingargjaldið. Frítekjumark atvinnutekna eldri borgara fari strax í 100 þúsund krónur á mánuði, tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þeirra og hjúkrunarheimilum fjölgað. Þrír milljarðar á ári úr Þjóðarsjóðnum muni renna í það átak á næstu árum.
Sjálfstæðismenn vilja auðvelda ungu fólki að eignast sína fyrstu íbúð og jafnframt tryggja að það eigi kost á leiguhúsnæði á virkum leigumarkaði. Einnig styrkja fjárhagslega stöðu öryrkja með börn í námi. Ennfremur hækka greiðslur í fæðingarorlofi og að þær fari ekki undir meðallaun á almennum vinnumarkaði og taki tillit til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála á hverjum tíma.
Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn taka upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Námsmenn fái 65 þúsund króna styrk á mánuði og lán ofan á það upp að fullri framfærslu með samtímagreiðslu sem mikill meirihluti námsmanna njóti góðs af. Framlög til nýsköpunar verði stóraukin á þremur árum úr 2,6 milljörðum í 4,7 milljarða.