Vill fund vegna svissneskrar leiðar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlar að boða Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, á fund vegna ummæla Gylfa um svissnesku leiðina sem Framsókn ætlar að fara í húsnæðismálum.

Í henni felst að ungu fólki verði heimilt að taka út iðgjaldið sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðarkaup. Við sölu íbúðarinnar er iðgjaldinu skilað aftur inn í lífeyrissjóðinn. Gylfi sagði í samtali við RÚV að þessi tillaga Framsóknarflokksins væri „galin“ að því leytinu að ef fólk fari með peningana út úr lífeyrissjóðnum sé það ekki lengur tryggt.

Sigurður Ingi spyr á Facebook-síðu sinni hvort Gylfi sé að vinna gegn almenningi í landinu. „Það er grafalvarlegt og ég hef af því verulegar áhyggjur að forseti ASÍ reyni að blekkja almenning hvað eftir annað í stað þess að reyna að finna raunhæfar leiðir til að hjálpa. Hvaða tillögur hefur ASÍ lagt til varðandi verðtrygginguna? eða hverjar eru tillögur ASÍ varðandi vandann í húsnæðismálum?“ skrifar hann.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

Sigurður bætir við að nauðsynlegt sé að leysa bráðavanda ungs fólks í húsnæðismálum. „Fólk er að greiða himinhá iðgjöld inn í lífeyrissjóðina, er að greiða af námslánum, er með ung börn og það verður æ erfiðara að safna upp í útborgun fyrir fyrstu íbúð. Ungu fólki verður heimilt að taka út það iðgjald sem það hefur lagt í lífeyrissjóð. Samningurinn verður þannig að lífeyrissjóðsréttindin halda sér. Lífeyrissjóðirnir eru á fyrsta veðrétti og fá sitt til baka. Til að mynda gæti fólk greitt meira inn í lífeyrissjóðinn við sölu fasteignar en það tók út. Það tryggir að réttindin muni ekki skerðast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert