Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skaut föstum skotum að Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, á fundi um menntamál sem haldinn var á vegum Kennarasambands Íslands í samstarfi við menntavísindasvið Háskóla Íslands í dag.
Vísaði Þorgerður til þess að Katrín hafi verið í ríkisstjórn þegar samþykkt var að fara í framkvæmdir við stóriðju á Bakka og Vaðlaheiðargöng.
„Ef ég væri í ríkisstjórn sem stæði frammi fyrir, á erfiðum tímum, að verja menntakerfið eða fara í framkvæmdir á Bakka eða fara í framkvæmdir á Vaðlaheiðargöngum þá er ekki spurning í mínum huga hvað ég myndi velja, ekki spurning,“ sagði Þorgerður undir lok fundarins þegar mikið var búið að gagnrýna fjárlögin 2018 og fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar.
„Þetta er ekki endilega bara gagnrýni á Katrínu, þetta er sá veruleiki sem stjórnmál standa frammi fyrir hverju sinni. Það eru allir flokkar sem hafa staðið frammi fyrir þessu Við viljum auðvitað segja það sem þið viljið heyra en við verðum líka að vera ábyrg. Þess vegna segjum við í Viðreisn að viljum halda áfram að byggja upp menntakerfið, við viljum að það sé sjálfbært, við viljum að það sé öflugt, við viljum bæta það, við viljum spyrja hvert er fjármagnið að fara?“
Hún sagði fráfarandi ríkisstjórn hafa lofað 7 milljörðum króna inn í menntakerfið, en það hefðu verið komnir inn 6 milljarðar. „Það vantar milljarð, það er ekki alveg nógu gott en við fórum langleiðina.“
Fulltrúar allra stærstu framboðanna mættu á fundinn og var tilgangur fundarins að heyra hvað flokkarnir hefðu fram að færa í menntamálum og hver þeirra framtíðarsýn væri.
Aðalbjörn Sigurðsson, útgáfu og kynningarstjóri Kennarasambandsins, var fundarstjóri og í upphafi fundarins bað hann frambjóðendur um að halda sig við skólamál.
„Áður en við byrjum ætla ég að spyrja frambjóðendur og þá sem hér sitja hvort við getum verið sammála um eftirfarandi: Við erum á fundi um skólamál þannig ég ætla leyfa mér að draga þá ályktun að ef frambjóðandi lofar einhverju hérna það sé búið að tryggja fjármagn til þess. Við ætlum við ekki að eyða mestum tíma í ræða skattahækkanir,“ sagði Aðalbjörn í upphafi fundarins. Þrátt fyrir að fundargestir hafi að mestu leyti virt þessa beiðni fundarstjóra þá fór drjúgur tími í gagnrýni á fjármálaáætlunina.
Þorgerður gat því ekki setið á sér þegar hún fékk orðið undir lok fundarins. „Aðeins út af fjármálaáætlun. Það skiptir gríðarlega miklu máli upp á framtíðina, að þegar við erum að lofa aukinni menntun og velferð að við séum ekki að setja þetta yfir á framtíðina, að við verðum hér ekki einhverjir flokkar sem lofum upp í ermina á okkur einverju sem við getum ekki staðið við.
Hún sagði að þess vegna skipti afgangur af fjárlögum gríðarlega miklu máli. „Mér þykir ótrúlega leiðinlegt að þurfa segja þetta, en það skiptir máli að við getum greitt niður eins og við gerðum núna fyrir þremur mánuðum. Þar sem við greiddum 200 milljarða lán og þar með spöruðum við okkur 15 milljarða í vaxtakostnað sem er helmingurinn af rekstri framhaldsskólakerfisins. Það er varanleg velferð.“
Hún sagði alla vilja veita aukni fjármagni í menntakerfið en það þyrfti að spyrja hvernig það yrði gert. „Ég vara við því, og ég ætla ekki að gera það, að fara að lofa upp í ermina á mér. Ábyrg ríkisfjármál og ábyrg hagstjórn er grunnurinn undir velferð og þar með menntun í landinu og þannig höldum við best áfram.“