Hvað á að gera við stjórnarskrána?

mbl.is/Hjörtur

Meðal þess sem verður mögu­lega á verk­efna­skrá næstu rík­is­stjórn­ar eru stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar og hvernig skuli standa að þeim. Stjórn­mála­flokk­arn­ir sem bjóða fram við þing­kosn­ing­arn­ar sem fram fara 28. októ­ber hafa oft á tíðum ólíka stefnu þegar kem­ur að mála­flokkn­um. Á meðan sum­ir vilja nýja stjórn­ar­skrá á grund­velli til­lagna Stjórn­lagaráðs vilja aðrir að gerðar verði breyt­ing­ar á nú­ver­andi stjórn­ar­skrá. Þá vilja sum­ir fara sér hægt í mál­inu á meðan aðrir telja það ekki þola neina bið.

Frétt mbl.is: Hyggj­ast leysa hús­næðis­vand­ann

Hér fyr­ir neðan má lesa sam­an­tekt á stefnu­mál­um flokk­anna í stjórn­ar­skrár­mál­inu. Ekki fund­ust þó upp­lýs­ing­ar um stefnu Flokks fólks­ins í þeim efn­um, hvorki á vefsíðu flokks­ins né feng­ust upp­lýs­ing­ar um það frá flokkn­um þegar eft­ir því var leitað, þrátt fyr­ir ít­rek­un.

Vinstri­hreyf­ing­in - grænt fram­boð

Vinstri­hreyf­ing­in - grænt fram­boð vill sam­kvæmt stefnu sinni ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfund­in­um 2010 og klára nýja stjórn­ar­skrá byggða á til­lög­um Stjórn­lagaráðs. Flokk­ur­inn vill að lokið verði við heild­ar­end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár lýðveld­is­ins Íslands til að þjóðin eign­ist fram­sækna stjórn­ar­skrá. Mik­il­vægt sé að stjórn­skip­an lands­ins miði að því að dreifa valdi og auka jöfnuð.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tel­ur að huga þurfi vel að breyt­ing­um á stjórn­ar­skránni og ráðrúm þurfi að gef­ast, bæði inn­an þings og utan, til að gaum­gæfa til­lög­ur að breyt­ing­um á henni. Fara þurfi var­lega í breyt­ing­ar á stjórn­ar­skránni og heild­ar­end­ur­skoðun henn­ar sam­rým­ist illa sjón­ar­miðum um réttarör­yggi, stöðug­leika og fyr­ir­sjá­an­leika. Flokk­ur­inn tel­ur að ekki sé heilla­væn­legt að knýja fram rót­tæk­ar stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar í krafti þing­meiri­hluta hverju sinni held­ur þurfi breyt­ing­ar að eiga sér stað af yf­ir­veg­un og í viðtækri póli­tískri sátt til að tryggja sam­stöðu og stöðug­leika í stjórn­skip­un lands­ins.

Sam­fylk­ing­in

Sam­fylk­ing­in vill breyta stjórn­ar­skránni á grund­velli til­lagna Stjórn­lagaráðs. Ný stjórna­skrá, sem meðal ann­ars tryggi eign al­menn­ings á auðlind­um og sjálf­bæra nýt­ingu þeirra, verði lögð fyr­ir Alþingi Íslend­inga til samþykkt­ar. Þá legg­ur flokk­ur­inn áherslu á aðgrein­ingu valdþátta, ekki síst lög­gjaf­ar­valds og fram­kvæmd­ar­valds, raun­veru­legt þing­ræði og jafnt vægi allra kjós­enda. Stjórn­ar­skrá­in skuli enn­frem­ur leggja áherslu á kven­frelsi og fyllstu mann­rétt­indi og þar með tal­in efna­hags­leg, fé­lags­leg og menn­ing­ar­leg rétt­indi. Enn­frem­ur skuli í henni vera ákvæði um framsal rík­is­valds vegna alþjóðasamn­inga og ákvæði um þjóðar­at­kvæðagreiðslur.

Pírat­ar

Pírat­ar vilja samþykkja nýja stjórn­ar­skrá á grund­velli til­lag­ana stjórn­lagaráðs. Þeir segja að ís­lensk stjórn­sýsla þurfi á upp­færslu að halda í takt við tím­ann. Nú­ver­andi stjórn­ar­skrá bjóði upp á óstöðugt stjórn­ar­far þar sem ráðherr­ar fari sínu fram án sam­ráðs við al­menn­ing.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er hlynnt­ur end­ur­skoðun á stjórn­ar­skrá lýðveld­is­ins. Mik­il­vægt sé að fyrst sé horft til breyt­inga sem lúta að nýju auðlinda­ákvæði og skýr­um ákvæðum um beint lýðræði og ekki verði opnað á framsal full­veld­is. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vill að vægi at­kvæða verði jafnað eins og kost­ur er en hafn­ar því al­farið að landið verði gert að einu kjör­dæmi. Frek­ar þurf að horfa til þess að fjölga kjör­dæm­um frá því sem nú er. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er hlynnt­ur per­sónu­kjöri og auknu vægi beins lýðræðis með lög­fest­ingu reglna um þjóðar­at­kvæði. Þá vill flokk­ur­inn að fram fari tvö­föld for­seta­kosn­ing þar sem kosið verði á milli tveggja efstu fram­bjóðenda í síðari um­ferð þannig að for­seti hafi skýrt umboð frá meiri­hluta þjóðar­inn­ar.

Viðreisn

Viðreisn legg­ur áherslu á að sam­komu­lag ná­ist um heild­stætt, skýrt og tíma­sett ferli með það mark­mið að til verði ný stjórn­ar­skrá. Það ferli eigi að taka mið af til­lög­um Stjórn­lagaráðs að nýrri stjórn­ar­skrá og ann­arri vinnu að stjórn­ar­skrár­breyt­ing­um á síðari stig­um.

Björt framtíð

Björt framtíð vill að breyt­ing­ar verði gerðar á stjórn­ar­skrá Íslands í sam­ræmi við niður­stöðu ráðgef­andi þjóðar­at­kvæðagreiðslu um stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar haustið 2012 þar sem kosið var um til­lög­ur Stjórn­lagaráðs að nýrri stjórn­ar­skrá.

Alþýðufylk­ing­in

Alþýðufylk­ing­in styður það að stjórn­ar­skrá á grund­velli til­lagna Stjórn­lagaráðs taki gildi sem ný stjórn­ar­skrá. Hins veg­ar vill flokk­ur­inn gera ákveðnar breyt­ing­ar á þeim. Flokk­ur­inn hafn­ar því að stjórn­ar­skrá­in hafi valdið efna­hagskrís­unni á Íslandi á sín­um tíma. Sett er spurn­inga­merki við ákvæði um framsal rík­is­valds sem að mati flokks­ins virðist aðallega þjóna þeim til­gangi að auðvelda inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið. Alþýðufylk­ing­in vill enn­frem­ur stjórn­ar­skrárá­kvæði um að eign­ar­rétt­ur allra skuli vera jafn­gild­ur og vill skoða ákvæði um há­marks leyfi­leg­an launamun, fé­lags­leg­an rekst­ur á innviðum sam­fé­lags­ins og fleira sem bæti rétt­ar­stöðu alþýðunn­ar gagn­vart auðstétt­inni.

Miðflokk­ur­inn

Miðflokk­ur­inn vill end­ur­skoða stjórn­ar­skrána í köfl­um á næstu tveim­ur kjör­tíma­bil­um. Flokk­ur­inn hyggst beita sér fyr­ir ákvæðum um beint lýðræði og borg­ar­frum­kvæði.

Frétt­in hef­ur verið upp­færð með stefnu Miðflokks­ins í mála­flokkn­um, en hún barst eft­ir að frétt­in birt­ist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert