Hvað á að gera við stjórnarskrána?

mbl.is/Hjörtur

Meðal þess sem verður mögulega á verkefnaskrá næstu ríkisstjórnar eru stjórnarskrárbreytingar og hvernig skuli standa að þeim. Stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram við þingkosningarnar sem fram fara 28. október hafa oft á tíðum ólíka stefnu þegar kemur að málaflokknum. Á meðan sumir vilja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs vilja aðrir að gerðar verði breytingar á núverandi stjórnarskrá. Þá vilja sumir fara sér hægt í málinu á meðan aðrir telja það ekki þola neina bið.

Frétt mbl.is: Hyggjast leysa húsnæðisvandann

Hér fyrir neðan má lesa samantekt á stefnumálum flokkanna í stjórnarskrármálinu. Ekki fundust þó upplýsingar um stefnu Flokks fólksins í þeim efnum, hvorki á vefsíðu flokksins né fengust upplýsingar um það frá flokknum þegar eftir því var leitað, þrátt fyrir ítrekun.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill samkvæmt stefnu sinni ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klára nýja stjórnarskrá byggða á tillögum Stjórnlagaráðs. Flokkurinn vill að lokið verði við heildarendurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands til að þjóðin eignist framsækna stjórnarskrá. Mikilvægt sé að stjórnskipan landsins miði að því að dreifa valdi og auka jöfnuð.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn telur að huga þurfi vel að breytingum á stjórnarskránni og ráðrúm þurfi að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni. Fara þurfi varlega í breytingar á stjórnarskránni og heildarendurskoðun hennar samrýmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi, stöðugleika og fyrirsjáanleika. Flokkurinn telur að ekki sé heillavænlegt að knýja fram róttækar stjórnarskrárbreytingar í krafti þingmeirihluta hverju sinni heldur þurfi breytingar að eiga sér stað af yfirvegun og í viðtækri pólitískri sátt til að tryggja samstöðu og stöðugleika í stjórnskipun landsins.

Samfylkingin

Samfylkingin vill breyta stjórnarskránni á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs. Ný stjórnaskrá, sem meðal annars tryggi eign almennings á auðlindum og sjálfbæra nýtingu þeirra, verði lögð fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar. Þá leggur flokkurinn áherslu á aðgreiningu valdþátta, ekki síst löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, raunverulegt þingræði og jafnt vægi allra kjósenda. Stjórnarskráin skuli ennfremur leggja áherslu á kvenfrelsi og fyllstu mannréttindi og þar með talin efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Ennfremur skuli í henni vera ákvæði um framsal ríkisvalds vegna alþjóðasamninga og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Píratar

Píratar vilja samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagana stjórnlagaráðs. Þeir segja að íslensk stjórnsýsla þurfi á uppfærslu að halda í takt við tímann. Núverandi stjórnarskrá bjóði upp á óstöðugt stjórnarfar þar sem ráðherrar fari sínu fram án samráðs við almenning.

Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn er hlynntur endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Mikilvægt sé að fyrst sé horft til breytinga sem lúta að nýju auðlindaákvæði og skýrum ákvæðum um beint lýðræði og ekki verði opnað á framsal fullveldis. Framsóknarflokkurinn vill að vægi atkvæða verði jafnað eins og kostur er en hafnar því alfarið að landið verði gert að einu kjördæmi. Frekar þurf að horfa til þess að fjölga kjördæmum frá því sem nú er. Framsóknarflokkurinn er hlynntur persónukjöri og auknu vægi beins lýðræðis með lögfestingu reglna um þjóðaratkvæði. Þá vill flokkurinn að fram fari tvöföld forsetakosning þar sem kosið verði á milli tveggja efstu frambjóðenda í síðari umferð þannig að forseti hafi skýrt umboð frá meirihluta þjóðarinnar.

Viðreisn

Viðreisn leggur áherslu á að samkomulag náist um heildstætt, skýrt og tímasett ferli með það markmið að til verði ný stjórnarskrá. Það ferli eigi að taka mið af tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og annarri vinnu að stjórnarskrárbreytingum á síðari stigum.

Björt framtíð

Björt framtíð vill að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar haustið 2012 þar sem kosið var um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin styður það að stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs taki gildi sem ný stjórnarskrá. Hins vegar vill flokkurinn gera ákveðnar breytingar á þeim. Flokkurinn hafnar því að stjórnarskráin hafi valdið efnahagskrísunni á Íslandi á sínum tíma. Sett er spurningamerki við ákvæði um framsal ríkisvalds sem að mati flokksins virðist aðallega þjóna þeim tilgangi að auðvelda inngöngu í Evrópusambandið. Alþýðufylkingin vill ennfremur stjórnarskrárákvæði um að eignarréttur allra skuli vera jafngildur og vill skoða ákvæði um hámarks leyfilegan launamun, félagslegan rekstur á innviðum samfélagsins og fleira sem bæti réttarstöðu alþýðunnar gagnvart auðstéttinni.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn vill endurskoða stjórnarskrána í köflum á næstu tveimur kjörtímabilum. Flokkurinn hyggst beita sér fyrir ákvæðum um beint lýðræði og borgarfrumkvæði.

Fréttin hefur verið uppfærð með stefnu Miðflokksins í málaflokknum, en hún barst eftir að fréttin birtist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert