Breytt aðferðafræði Félagsvísindastofnunar

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands spyr ekki lengur sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands spyr ekki lengur sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn. Ómar Óskarsson

Í Morgunblaðinu í dag birtist ný könnun á fylgi stjórnmálaflokka, sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Aðferðafræði í könnuninni er lítillega breytt frá fyrri könnunum Félagsvísindastofnunar, en þeir kjósendur sem enn eru óákveðnir eftir tvær spurningar eru ekki lengur spurðir hvort líklegra sé að þeir kjósi Sjálfstæðisflokkinn eða annan flokk eða lista.

Þessi spurning hefur verið notuð til þess að auka nákvæmni í mælingum á fylgi Sjálfstæðisflokksins, en í kringum síðustu aldamót mældist Sjálfstæðisflokkurinn með um 4-5 prósentustigum of mikið fylgi áður en spurningunni var bætt við.

Aðstæður í íslenskum stjórnmálum eru aðrar nú og hefur það komið í ljós að þriðja spurningin hefur orðið til þess að auka skekkju í mældu fylgi Sjálfstæðisflokksins. Spurningin hefur þannig valdið því að fylgi flokksins hefur verið vanmetið.

Breytingin hefur þau áhrif, samkvæmt Félagsvísindastofnun, að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist um 2% hærra en það hefur gert í könnunum Félagsvísindastofnunar hingað til.

Fylgi flokkanna samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið.
Fylgi flokkanna samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Félagsvísindastofnun HÍ

Hér að neðan eru ítarlegar útskýringar frá Félagsvísindastofnun um ástæður þess að aðferðafræðinni hefur verið breytt:

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur lengi stuðst við þá aðferð að spyrja þriggja spurninga um kosningaætlun þátttakenda í fylgiskönnunum. Fyrst er spurt „Ef gengið yrði til kosninga í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem segjast ekki vita hvað þeir myndu kjósa fá næst spurninguna „En hvaða flokk eða lista finnst þér líklegast að þú munir kjósa?“

Þriðja spurningin „Hvort heldurðu að sé líklegra, að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk eða lista?“ er svo lögð fyrir þá svarendur sem segjast hvorki vita hvaða flokk þeir myndu kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag, né hvaða flokk sé líklegast að þeir muni kjósa.

Tilgangur þessarar spurningarinnar hefur verið að meta betur fylgi við Sjálfstæðisflokkinn og dreifa síðan fylgi við aðra flokka í þeim hlutföllum sem þeir flokkar fá í fyrri tveimur spurningunum.

Fyrir því eru sögulegar ástæður. Þar sem minni munur var á stefnu annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins mátti telja líklegt að þeir sem myndu að lokum kjósa Sjálfstæðisflokkinn hefðu gefið það til kynna í einhverri af spurningunum þremur, en aðrir væru líklega að velja milli hinna flokkanna.

Í könnunum sem gerðar voru í kring um síðustu aldamót mældist Sjálfstæðisflokkurinn með um 4-5 prósentustigum of mikið fylgi áður en þriðju spurningunni var bætt við, væri miðað við kosningaúrslit. Með því að notast við þriðju spurninguna var mat á fylgi Sjálfstæðisflokksins hins vegar nær því sem raunin varð.

Í síðustu tvennum kosningum, árin 2013 og 2016, hefur þetta ekki átt við, þar sem skekkja niðurstaðna eftir tvær spurningar miðað við kosningaúrslit var á þann veg að fylgi Sjálfstæðisflokksins var vanmetið á bilinu 0-3 prósentustig og fyrir vikið voru áhrif þriðju spurningarinnar þau að auka skekkjuna.

Í kosningunum 2016 mældist Sjálfstæðisflokkurinn með töluvert minna fylgi í könnunum Félagsvísindastofnunar en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum. Að hluta til skýrist það af því að gagnaöflunartími var langur, þar sem svörum var safnað í heila viku fyrir kjördag.

Árið 2013 fékk Sjálfstæðisflokkurinn sömuleiðis meira fylgi í kosningum en í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir kjördag, þó munurinn hafi verið innan skekkjumarka. Það má því leiða að því líkum að kjósendur sem áður hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn eigi auðveldara nú en áður með að kjósa aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn.

Svo virðist sem nokkur hluti þeirra sem kaus Sjálfstæðisflokkinn í fyrra ætli ekki að gera svo í ár, sem bendir til þess að þeirri þróun sem var lýst hér á undan sé enn að eiga sér stað. Þegar slík óvissa er fyrir hendi er vísara að gefa sér sem fæstar forsendur um hegðun kjósenda. Af þeim sökum teljum við ekki öruggt að nota spurninguna „Hvort heldurðu að sé líklegra, að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk eða lista?“ til að dreifa fylgi á aðra flokka.

Að jafnaði mun þetta hafa þær afleiðingar að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist um 2% hærra en það hefur gert í könnunum Félagsvísindastofnunar hingað til, þó sá munur sé breytilegur milli kannana. Fylgi annarra flokka mun minnka á móti og mun mest draga úr fylgi þeirra flokka annarra en Sjálfstæðisflokksins sem mælst hafa stærstir hverju sinni.

Fram að kosningum verður því greint frá samsettum niðurstöðum úr eftirfarandi spurningum: „Ef gengið yrði til kosninga í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“, „En hvaða flokk eða lista finnst þér líklegast að þú munir kjósa?“ og „Hvaða flokk eða lista kaust þú utankjörfundar í Alþingiskosningunum sem haldnar eru á þessu ári?“.

Þriðja spurningin þar sem svarendur velja á milli Sjálfstæðisflokks og annarra flokka er því undanskilin í útreikningunum. Sú ákvörðun er tekin út frá aðferðafræðilegu sjónarmiði, með það að markmiði að kannanir Félagsvísindastofnunar komist sem næst kosningaúrslitunum að viðhöfðum þeim fyrirvara að kosningaætlun getur breyst allt fram á kjördag, þegar búið er að birta síðustu niðurstöður fylgiskannana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert