Breytt aðferðafræði Félagsvísindastofnunar

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands spyr ekki lengur sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands spyr ekki lengur sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn. Ómar Óskarsson

Í Morg­un­blaðinu í dag birt­ist ný könn­un á fylgi stjórn­mála­flokka, sem unn­in var af Fé­lags­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands. Aðferðafræði í könn­un­inni er lít­il­lega breytt frá fyrri könn­un­um Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar, en þeir kjós­end­ur sem enn eru óákveðnir eft­ir tvær spurn­ing­ar eru ekki leng­ur spurðir hvort lík­legra sé að þeir kjósi Sjálf­stæðis­flokk­inn eða ann­an flokk eða lista.

Þessi spurn­ing hef­ur verið notuð til þess að auka ná­kvæmni í mæl­ing­um á fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins, en í kring­um síðustu alda­mót mæld­ist Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með um 4-5 pró­sentu­stig­um of mikið fylgi áður en spurn­ing­unni var bætt við.

Aðstæður í ís­lensk­um stjórn­mál­um eru aðrar nú og hef­ur það komið í ljós að þriðja spurn­ing­in hef­ur orðið til þess að auka skekkju í mældu fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins. Spurn­ing­in hef­ur þannig valdið því að fylgi flokks­ins hef­ur verið van­metið.

Breyt­ing­in hef­ur þau áhrif, sam­kvæmt Fé­lags­vís­inda­stofn­un, að fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins mæl­ist um 2% hærra en það hef­ur gert í könn­un­um Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar hingað til.

Fylgi flokkanna samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið.
Fylgi flokk­anna sam­kvæmt nýrri könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar fyr­ir Morg­un­blaðið. Fé­lags­vís­inda­stofn­un HÍ

Hér að neðan eru ít­ar­leg­ar út­skýr­ing­ar frá Fé­lags­vís­inda­stofn­un um ástæður þess að aðferðafræðinni hef­ur verið breytt:

Fé­lags­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands hef­ur lengi stuðst við þá aðferð að spyrja þriggja spurn­inga um kosn­inga­ætl­un þátt­tak­enda í fylg­is­könn­un­um. Fyrst er spurt „Ef gengið yrði til kosn­inga í dag, hvaða flokk eða lista mynd­ir þú kjósa?“ Þeir sem segj­ast ekki vita hvað þeir myndu kjósa fá næst spurn­ing­una „En hvaða flokk eða lista finnst þér lík­leg­ast að þú mun­ir kjósa?“

Þriðja spurn­ing­in „Hvort held­urðu að sé lík­legra, að þú kjós­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn eða ein­hvern ann­an flokk eða lista?“ er svo lögð fyr­ir þá svar­end­ur sem segj­ast hvorki vita hvaða flokk þeir myndu kjósa ef gengið yrði til kosn­inga í dag, né hvaða flokk sé lík­leg­ast að þeir muni kjósa.

Til­gang­ur þess­ar­ar spurn­ing­ar­inn­ar hef­ur verið að meta bet­ur fylgi við Sjálf­stæðis­flokk­inn og dreifa síðan fylgi við aðra flokka í þeim hlut­föll­um sem þeir flokk­ar fá í fyrri tveim­ur spurn­ing­un­um.

Fyr­ir því eru sögu­leg­ar ástæður. Þar sem minni mun­ur var á stefnu annarra flokka en Sjálf­stæðis­flokks­ins mátti telja lík­legt að þeir sem myndu að lok­um kjósa Sjálf­stæðis­flokk­inn hefðu gefið það til kynna í ein­hverri af spurn­ing­un­um þrem­ur, en aðrir væru lík­lega að velja milli hinna flokk­anna.

Í könn­un­um sem gerðar voru í kring um síðustu alda­mót mæld­ist Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með um 4-5 pró­sentu­stig­um of mikið fylgi áður en þriðju spurn­ing­unni var bætt við, væri miðað við kosn­inga­úr­slit. Með því að not­ast við þriðju spurn­ing­una var mat á fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins hins veg­ar nær því sem raun­in varð.

Í síðustu tvenn­um kosn­ing­um, árin 2013 og 2016, hef­ur þetta ekki átt við, þar sem skekkja niðurstaðna eft­ir tvær spurn­ing­ar miðað við kosn­inga­úr­slit var á þann veg að fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins var van­metið á bil­inu 0-3 pró­sentu­stig og fyr­ir vikið voru áhrif þriðju spurn­ing­ar­inn­ar þau að auka skekkj­una.

Í kosn­ing­un­um 2016 mæld­ist Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með tölu­vert minna fylgi í könn­un­um Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar en flokk­ur­inn fékk upp úr kjör­köss­un­um. Að hluta til skýrist það af því að gagna­öfl­un­ar­tími var lang­ur, þar sem svör­um var safnað í heila viku fyr­ir kjör­dag.

Árið 2013 fékk Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sömu­leiðis meira fylgi í kosn­ing­um en í síðustu könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar fyr­ir kjör­dag, þó mun­ur­inn hafi verið inn­an skekkju­marka. Það má því leiða að því lík­um að kjós­end­ur sem áður hafa kosið Sjálf­stæðis­flokk­inn eigi auðveld­ara nú en áður með að kjósa aðra flokka en Sjálf­stæðis­flokk­inn.

Svo virðist sem nokk­ur hluti þeirra sem kaus Sjálf­stæðis­flokk­inn í fyrra ætli ekki að gera svo í ár, sem bend­ir til þess að þeirri þróun sem var lýst hér á und­an sé enn að eiga sér stað. Þegar slík óvissa er fyr­ir hendi er vís­ara að gefa sér sem fæst­ar for­send­ur um hegðun kjós­enda. Af þeim sök­um telj­um við ekki ör­uggt að nota spurn­ing­una „Hvort held­urðu að sé lík­legra, að þú kjós­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn eða ein­hvern ann­an flokk eða lista?“ til að dreifa fylgi á aðra flokka.

Að jafnaði mun þetta hafa þær af­leiðing­ar að fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins mæl­ist um 2% hærra en það hef­ur gert í könn­un­um Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar hingað til, þó sá mun­ur sé breyti­leg­ur milli kann­ana. Fylgi annarra flokka mun minnka á móti og mun mest draga úr fylgi þeirra flokka annarra en Sjálf­stæðis­flokks­ins sem mælst hafa stærst­ir hverju sinni.

Fram að kosn­ing­um verður því greint frá sam­sett­um niður­stöðum úr eft­ir­far­andi spurn­ing­um: „Ef gengið yrði til kosn­inga í dag, hvaða flokk eða lista mynd­ir þú kjósa?“, „En hvaða flokk eða lista finnst þér lík­leg­ast að þú mun­ir kjósa?“ og „Hvaða flokk eða lista kaust þú utan­kjör­fund­ar í Alþing­is­kosn­ing­un­um sem haldn­ar eru á þessu ári?“.

Þriðja spurn­ing­in þar sem svar­end­ur velja á milli Sjálf­stæðis­flokks og annarra flokka er því und­an­skil­in í út­reikn­ing­un­um. Sú ákvörðun er tek­in út frá aðferðafræðilegu sjón­ar­miði, með það að mark­miði að kann­an­ir Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar kom­ist sem næst kosn­inga­úr­slit­un­um að viðhöfðum þeim fyr­ir­vara að kosn­inga­ætl­un get­ur breyst allt fram á kjör­dag, þegar búið er að birta síðustu niður­stöður fylgisk­ann­ana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert