Ólympíuleikar í „skyndilausnum og fiffi“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir að sér hafi blöskrað endanlega í dag þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi kynnt að hann vildi að ríkið myndi nýta sér forkaupsrétt á hlut í Arion banka og gefa Íslendingum hlutabréf í bankanum.

Í færslu á Facebook segir Óttarr að þetta sé „nýjasta fiffið“ og að með þessu sé Sigmundur að tala fyrir því að nota ríkisfé til að kaupa bankann og svo dreifa þeim auðæfum til almennings. Gagnrýnir hann að þetta sé í forgangi á undan styrkingu heilbrigðiskerfisins, vegakerfisins eða menntakerfisins.

Eins og að kaupa sér vini með að gefa nammi

„Forgangsröðunin er skýr; að leggja alla áherslu á að kaupa sér vinsældir. Fyrir mér er þetta eins og afgreiðslumaður í búð reyndi að kaupa sér vini með því að gefa nammi úr hillunum,“ segir Óttarr.

Rifjar hann upp leiðréttingaraðgerð fyrri stjórnvalda þar sem 80 milljarðar voru notaðir til að lækka verðtryggð íbúðalán. Segir Óttarr að þar hafi Sigmundur kynnt „stórkostlegt fiff“ sem hafi „veitt framhjá verkefnum í velferðakerfinu og framhjá innviðauppbyggingu til að dreifa fjármunum til þeirra sem voru fegnir að njóta en voru kannski ekki í mestu þörfinni“.

Óttar segir að sér hafi blöskrað að horfa upp á kosningabaráttuna hingað til, þar sem hún hafi snúist upp í loforðakapphlaup um allskonar útgjöld og uppbyggingu sem eigi að fjármagna með „peningum úr bankakerfinu, frá milljónerum, úr sjávarútveginum. Sumir flokkar eru óhræddir við að ráðstafa fé úr lífeyrissjóðunum.“

Leggja áherslu á langtímahugsun

Segir hann alla þó sammála um að þessir fjármuni verði ekki fengnir með hærri sköttum. „Manni líður eins og maður sé óvart lentur á ólympíuleikum í skyndilausnum og fiffi.“ Segir hann nýjasta útspil Sigmundar þó hafa orðið til þess að honum hafi blöskrað endanlega.

Segir Óttarr að Björt framtíð vilji ekki standa í innistæðulausum loforðum sem þessum og frekar hugsa til lengri tíma, jafnvel þó það þýði að flokkurinn virðist ósýnilegur. „Björt framtíð vill ekki taka þátt í þessari pólitík. Við leggjum áherslu á langtímahugsun og uppbyggingu sérstaklega í menntun og velferðakerfinu. En við vitum líka að það þýðir ekkert að byggja eintóma loftkastala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka