„Við viljum að allir njóti þeirrar hagsældar og velmegunar en ekki bara sumir,“ sagði Ólafur Ísleifsson, oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, á blaðamannafundi sem flokkurinn boðaði til í dag þar sem stefna hans var kynnt. Vísaði Ólafur til þeirrar velmegunar og þess efnahagsuppgangs sem til staðar væri í þjóðfélaginu í dag.
Kynningin var byggð á bæklingi sem Flokkur fólksins hefur látið setja saman og unnið að því að dreifa til kjósenda að undanförnu. Þar er lögð áhersla á fimm meginatriði. Flokkurinn vill 300 þúsund krónur á mánuði verði skattfrjálsar með hækkun persónuafsláttar og koma á félagslegu kaupleigukerfi og leigumarkaði sem hafi ekki hagnað að leiðarljósi.
Flokkur fólksins vill ennfremur að verðtrygging á neytendalánum og fasteignalánum verði afnumin og vextir lækkaðir m.a. með því að aftengja leigu og fasteignaverð frá vísitölumælingu Hagstofu íslands. Einnig vill flokkurinn afnema skerðingar greiðslna á milli almannatrygginga og lífeyrissjóða og að grunnheilbrigðisþjónustan verði gjaldfrjáls.
Ólafur sagði þekkt hvaða hópar hefðu orðið útundan í þessum efnum. Það væru öryrkjar, aldraðir og barnafjölskyldur með lágar tekjur. „Við teljum að það sé einstakt tækifæri núna, við þær aðstæður sem ég hef lýst, að rétta hlut þessara hópa, koma til móts við þessa hópa, rétta þeim hjálparhönd þannig að þeir megi vel una við í landinu.“
Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, sagði að frá 1998 til 2016 hefði persónuafsláttur ekki fylgt vísitölu. Það þýddi að venjuleg fjögurra manna fjölskylda væri að fá í dag 100-135 þúsund króna lakari framfærslu en væri ef persónuafslátturinn hefði fylgt launaþróun. Með þessu hefði verið farið gegn láglaunafólkinu og þeim sem hefðu það verst.
„Þetta er algerlega óviðunandi. Við viljum sjá 300 þúsund króna lágmarksframfærslu og ekki krónu minna en það og við munum berjast fyrir því með oddi og egg,“ sagði Inga.