Hvað skal gera í umhverfismálum?

Snjóþungt hálendi. Myndin er tekin við Landmannalaugar.
Snjóþungt hálendi. Myndin er tekin við Landmannalaugar. mbl.is/RAX

Hver eru áherslumál flokkanna í umhverfis- og auðlindamálum í kosningaherferð þeirra? Kolefnislaust Ísland árið 2040, Þjóðarsjóður, aukin rafbílavæðing og barátta gegn hlýnun jarðar eru málefni sem koma öll við sögu. mbl.is tók saman helstu atriðin í stefnum flokkanna.

Vinstri grænir: Frekari stóriðja strikuð út

Í kosningaáherslum Vinstri grænna kemur fram að flokkurinn vill að Ísland verði kolefnislaust árið 2040. Hann vill hverfa frá áformum um olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa, binda kolefni með mótvægisaðgerðum og strika frekari áform um stóriðju út af borðinu. Ísland þarf jafnframt, að mati Vinstri grænna, að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°, auk þess sem efla þarf rannsóknir á hlýnun á vistkerfi lands og sjávar með sérstakri áherslu á súrnun sjávar.

Vinstri grænir vilja að þjóðgarðar verði stofnaðir á miðhálendi og hálendi Vestfjarða og að heilsárslandvarsla verði stórefld. Einnig vill flokkurinn friðlýsa svæði sem eru ákvörðuð í rammaáætlun og framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár.

Flokkurinn vill að dregið verði markvisst úr plastnotkun og endurnýting aukin. Tryggja þurfi einnig umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og nýting þeirra í sátt við umhverfi og náttúru.

Jafnframt vilja Vinstri grænir efla almenningssamgöngur auk uppbyggingar innviða samgöngukerfisins í þágu hjólandi og gangandi sem styðja við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, auka lífsgæði og bæta mannlíf.

Flokkurinn vill einnig hefja endurskoðun raforkusamninga til stóriðju með það að m.a. markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og  fækka stóriðjuverum. Vinstri grænir vilja einnig auka innlenda matvælaframleiðslu til muna til að koma í veg fyrir matarsóun.

Rafbílar á Íslandi eru um 3.000 talsins og útlit er …
Rafbílar á Íslandi eru um 3.000 talsins og útlit er fyrir að þeim muni fjölga hratt næstu árin. mbl.is/Golli

Sjálfstæðisflokkurinn: Þjóðarsjóður stofnaður

Sjálfstæðismenn ætlar að fylgja eftir markmiðum í loftslagsmálum og gæta jafnvægis milli nýtingar og náttúru.

Flokkurinn vill setja arðinn af orkuauðlindum landsins í Þjóðarsjóð. Í sjóðinn renni arður af orkuauðlindum í eigu ríkis. Sjóðurinn á að vera sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið, aftra ofhitnun þegar vel árar og tryggja komandi kynslóðum hlutdeild í arði af sameiginlegum auðlindum. Hluti sjóðsins verður nýttur í aðkallandi samfélagsverkefni.

Samfylkingin: Vill flýta orkuskiptum í samgöngum

Samfylkingin segist í kosningaáherslum sínum vilja taka markviss skref til að standa við skuldbindingar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.

Flokkurinn vill flýta orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land. Einnig vill flokkurinn að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum.

Í málefnaskrá Samfylkingarinnar kemur fram að flokkurinn vilji fara varlega í að virkja og vill bíða með frekari ákvarðanir um virkjanaframkvæmdir í vatnsorku og jarðhita þar til friðlýsing verndarkosta úr síðasta áfanga rammaáætlunar er orðin að veruleika. Verndarsvæðin fái formlega vernd gagnvart orkunýtingu eins og kveðið er á um í lögum.

Samfylkingin ætlar að stíga næstu skref til verndar náttúrusvæða og koma í veg fyrir frekari röskun miðhálendisins. Með þjóðgarði megi tryggja varðveislu náttúruverðmæta miðhálendisins og tryggja að náttúra Íslands verði sjálfbær uppspretta atvinnu, arðs og upplifunar fyrir alla.

Framsóknarflokkurinn: Bókhald náttúruauðlinda

Í málefnaskrá Framsóknarflokksins kemur fram að flokkurinn vilji tryggja sanngjarnan arð til þjóðarinnar að sameiginlegum auðlindum og að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá. Með bókhaldi náttúruauðlinda sé hægt að auka yfirsýn yfir auðlindir landsins og skilgreina nýtingu þeirra með sjálfbærni að leiðarljósi.

Framsókn vill að stjórnvöld beiti sér fyrir því að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins til að tryggja að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C og markmiðið sé kolsefnislaust Ísland.

Flokkurinn vill stuðla að aukinni rafvæðingu samgangna, með fjölgun hleðslustöðva um allt land og raftengingum skipa í höfnum, minni matarsóun ásamt því að leggja áherslu á aukna bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu. Einnig vilja framsóknarmenn stórminnka notkun plasts og auka endurvinnslu. Sömuleiðis vilja þeir auka fræðslu og rannsóknir á skaðsemi plasts og súrnunar sjávar á lífríkið við Íslandsstrendur.

Framsókn vill ekki einkavæða Landsvirkjun og hafnar öllum hugmyndum um útflutning á raforku um sæstreng. Að auki segir flokkurinn ótrygga afhendingu raforku hringinn um landið standa atvinnulífinu fyrir þrifum.

Vatnajökull.
Vatnajökull. mbl.is/Sigurður Bogi

Flokkur fólksins: Náttúran njóti vafans

Í málefnaskrá Flokks fólksins kemur fram að fram að auka beri vernd íslenskrar náttúru, fara með gát í virkjanamálum og að náttúran njóti ávallt vafans.

„Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúru og auðlinda er undirstaða velsældar. Stefnu í umhverfis- og auðlindamálum og ákvarðanir um ráðstöfun og nýtingu á að byggja á rannsóknum,“ segir á heimasíðu flokksins.

„Ákvarðanir um óafturkræfa ráðstöfun umhverfis og auðlinda eiga að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum, þar með talið umhverfisáhrifum. Verðmæti ósnortinnar náttúru verði viðurkennt.“

Viðreisn: Markaðstengt afgjald 

Viðreisn vill að ríkið móti heildstæða auðlindastefnu til langs tíma þar sem umhverfisvernd, heildarhagsmunir samfélags, hagsmunir sveitarfélaga, fjárfesting í innviðum og hagsmunir komandi kynslóða eru í forgrunni. Sett verði fram nýtingarstefna um auðlindir sem byggist á vísindalegum grunni.

Efla þarf samvinnu milli einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera um nýtingu auðlinda, að mati flokksins, og taka tillit til sjónarmiða um náttúruvernd, þannig að saman fari heilbrigð samkeppni, framþróun og aukin hagsæld. Leggja ber áherslu á að nýta afurðir auðlinda sem best m.a. með áherslu á nýsköpun.

Viðreisn leggur til að markaðstengt afgjald verði tekið upp fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu. Afgjaldið nemi að lágmarki þeim umhverfiskostnaði sem nýtingin veldur.

Ísland taki virkan þátt í að berjast gegn hnattrænum umhverfisvandamálum, eins og loftslagsbreytingum, með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi gegn þeim.

Flokkurinn vill taka upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi og að Íslendingar beiti sér af afli gegn mengun hafsins varðandi þrávirk efni og aðra mengunarvalda.

Vinna þarf verðmætalíkan fyrir jarðrænar auðlindir, að mati Viðreisnar, með það fyrir augum að þeir sem fái heimild til að nýta þær á samkeppnislegum forsendum séu skuldbundnir til að greiða sanngjarnt auðlindagjald fyrir afnotaréttinn. Rannsaka þarf grunnvatnsauðlindina og koma í veg fyrir mengun hennar af mannavöldum.

Einnig skal lögð áhersla á endurheimt votlendis, rafvæðingu bílaflotans, vistvæna orku til skipaflotans, framleiðslu á endurnýjanlegri orku og aukna skógrækt. Sömuleiðis skal koma á samræmdu kerfi grænna skatta.

Landsvirkjun kemur við sögu í stefnum flokkanna.
Landsvirkjun kemur við sögu í stefnum flokkanna. mbl.is/Golli

Píratar: Sjálfbær nýting auðlinda

Píratar segja að ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda séu nauðsynleg forgangsmál. Taka þurfi fullt tillit til alþjóðaviðmiða og samninga í umhverfismálum og leyfa náttúrunni að njóta vafans. Framfylgja skal megingildum sjálfbærrar þróunar í verki.

Í grunnstefnu Pírata í umhverfismálum segir að vernda þurfi miðhálendið til framtíðar.

Einnig styður flokkurinn rafbílavæðingu Íslands, með því meðal annars að huga að innviðum og með fjárhagslegum ívilnunum sem stefni að því að auka hlutfall rafbíla. „Almenn orkumála- og umhverfisstefna ætti að innihalda markmið um rafbílavæðingu og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim markmiðum,“ segir á heimasíðu Pírata.

Björt framtíð: Græn nýsköpun og hátækniiðnaður

Björt framtíð vill ekki sjá frekari uppbyggingu mengandi stóriðju á Íslandi og leggur þess í stað áherslu á tækifærin sem felast í grænni nýsköpun og hátækniðnaði.

Flokkurinn leggur mikla áherslu á að stjórnvöld og samfélagið allt vinni saman að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í takt við skuldbindingar Ísland í Parísarsamkomulaginu. Ljóst sé að Ísland þurfi að draga úr losun um allt að einni milljón tonna CO2 fyrir árið 2030. Flokkurinn stefnir að lágkolefnishagkerfi fyrir árið 2050 og afkola eins marga geira og gerlegt er fyrir árið 2040.

Björt framtíð er alfarið á móti olíuvinnslu á norðurslóðum, vill vernda heimskautavistkerfin og berjast gegn súrnun sjávar.

Flokkurinn styður stofnun miðhálendisþjóðgarðs og telur mikilvægt að heimamenn í þeim sveitarfélögum sem hafa skipulagsvald á miðhálendinu komi að því að skapa umgjörðina og móta verndar- og stjórnunaráætlun í miðhálendisþjóðgarði.

Björt framtíð leggur einnig áherslu á að gerð verði heildstæð landsáætlun um hvernig megi bæta landgæði með fjölbreyttum landgræðslu- og skógræktaraðgerðum. Byrjað verði að vinna að lykilverkefnum áætlunarinnar og tryggja þeim fjármagn á næsta ári, í samvinnu við bændur og aðra hlutaðeigandi.

Alþýðufylkingin: Vatn verði þjóðareign

Í kosningastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar kemur fram að auðlindir lands og sjávar verði sameign þjóðarinnar, óframseljanlegar og að arðurinn skili sér til þjóðarinnar í bættum lífskjörum. „Landgæðum og umhverfi má ekki spilla til hagnaðar fyrir einstaka auðmenn. Hófleg nýting og langtímaþarfir þjóðarinnar eiga að vera hafðar að leiðarljósi,“ segir á síðu flokksins.

Alþýðufylkingin vill taka til baka breytingar á vatnalögum og að vatn, bæði grunnvatn og yfirborðsvatn, verði þjóðareign á nýjan leik.

Ef olía finnst á Drekasvæðinu vill flokkurinn að hún sé látin liggja kyrr. Hann hafnar jafnframt áformum um rafmangssæstreng til Skotlands og berst fyrir að halda vinnslu og dreifingu raforku í félagslegum rekstri og gegn því að auðmenn geri sér hana að féþúfu á kostnað almennings.

Loks vill flokkurinn bregðast við umhverfisvanda með því að „losa samfélagið undan oki hins gróðadrifna fjármálakerfis“.

Miðflokkurinn

Engar upplýsingar um umhverfis- og auðlindamál er að finna í kosningaáherslum Miðflokksins á heimasíðu hans. Upplýsingar frá flokknum um áherslur hans hafa heldur ekki borist til mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert