Verði ekki hægt að misnota kerfið

Sigmundur Davíð Guðlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Guðlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þróunin á sviði ólögmætra fólksflutninga er ein af mörgum ástæðum þess að óhjákvæmilegt er að auka fjárveitingar til lögreglunnar. Það þarf að gera henni kleift að takast á við mál sem hafa gjörbreyst í eðli og umfangi á síðustu misserum.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Facebook-síðu sinni vegna skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi þar sem fram kemur að lögreglu sé kunnugt um að umsækjendur um alþjóðlega vernd misnoti móttökukerfi hér á landi með því að leggja fram tilhæfulausar umsóknir og stunda „svarta atvinnu“ eða brotastarfsemi á meðan mál þeirra eru til umfjöllunar.

Frétt mbl.is: Geta svipt umsækjendur þjónustu

Sigmundur segir mikilvægt að efla lögregluna til þess að geta betur brugðist við slíkum málum. Sjálfur hafi hann kynnst því vel sem forsætis- og dómsmálaráðherra hversu gott og mikið starf íslenska lögreglan sinnti þrátt fyrir mjög lítinn mannskap.

Stöðvaði frumvarpið að útlendingalögum

Sigmundur segir að gera þurfi breytingar meðal annars á útlendingalögum til þess að þau geri íslenskum stjórnvöldum kleift að aðstoða þá sem þurfi mest á því að halda en skapi ekki glufur og hvata fyrir þá sem vilji misnota kerfið hér á landi.

Sigmundur segist hafa stöðvað frumvarpið að útlendingalögunum í ríkisstjórn á sínum tíma og leitað álits meðal annars hjá lögreglunni eftir að hafa fengið ábendingar um að ýmsir gallar og hættur væru í því og farið fram á að það yrði lagað.

Hins vegar hafi frumvarpinu verið hleypt í gegn með öllum göllum þess, auk þess sem fleiri hafi bæst við í meðförum þingsins að hans sögn, um leið og hann hafi brugðið sér frá. Vísar hann þar til þess þegar hann vék fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni úr stóli forsætisráðherra eftir Panama-málið. Frumvarpið var samþykkt sumarið 2016.

Færslunni lýkur Sigmundur á þessum orðum: „Eflum lögregluna og lærum auk þess af reynslu nágrannalandanna í því hvernig við getum gert sem mest gagn fyrir fólk í neyð og hindrað um leið misnotkun kerfisins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert