Leggst ekki gegn ESB-kosningu

Katrín Jakobsdóttir leggst ekki gegn þjóðaratkvæði um hvort ganga eigi …
Katrín Jakobsdóttir leggst ekki gegn þjóðaratkvæði um hvort ganga eigi í ESB eða hvort sækja eigi um aðild að bandalaginu. mbl.is/Árni Sæberg

Tveir líklegir samstarfsflokkar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Píratar og Samfylking, vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort það eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB) fari fram á næsta kjörtímabili.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem hefur ígildi formanns Pírata, segir að það sé fyrsta skrefið eins og staðan er núna. „Við myndum vilja að kosið yrði um að sækja um aðild. Það er fyrsta skrefið núna eins og staðan er. Það er ekkert annað í stöðunni. Við erum alveg sammála VG um að það verði ekki farið í aðildarumsókn nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Þórhildur.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, svarar játandi aðspurður hvort hann vilji að atkvæðagreiðslan fari fram á næsta kjörtímabili. „Ég myndi vilja láta greiða atkvæði um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið,“ segir Logi og bætir við að kosið yrði aftur að loknum aðildarviðræðum við ESB.

„Gefum okkur að þjóðin vilji klára samninginn. Þá verður samningurinn á endanum borinn undir þjóðina og þá verðum við öll að gera upp hug okkar um hvort hann sé góður eða slæmur,“ segir Logi.

VG leggst ekki gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB

„Það er hreint af okkar hálfu að við viljum auðvitað ekki sækja um aðild þannig að þetta er ekki forgangsmál hjá okkur en við munum hins vegar ekki leggjast gegn því,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, um hvort þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að fara fram á næsta kjörtímabili.

Spurt hvort ganga eigi í ESB

Hún segir að þetta sé nokkuð sem verði rætt í stjórnarmyndunarviðræðum en sín persónulega skoðun sé að raunsærra væri að fylgjast með þróun mála innan ESB vegna þeirrar óvissu sem þar ríkir vegna útgöngu Bretlands.

Aðspurð hvort bera eigi undir þjóðina hvort ganga eigi í ESB eða hvort sækja eigi um aðild að bandalaginu segir Katrín að til greina komi að spyrja almenning beggja spurninga ef til atkvæðagreiðslu kemur á komandi kjörtímabili.

„Ég hef einhvern tímann sagt að mér fyndist koma til greina að spyrja beggja spurninga, ef á annað borð verður ráðist í þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég lít nú ekki svo á að það sé ákveðið af einhverjum einum heldur er þetta eitthvað sem kemur til kasta þingsins ef af þessu verður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert