Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Sjálfstæðisflokkurinn fengi rúm 24 prósent atkvæða ef kosið væri nú samkvæmt nýrri könnun fréttastofu 365 og birt er í Fréttablaðinu. Vinstri græn yrðu næststærsti flokkurinn með rúm 19 prósent atkvæða.

Miðflokkurinn er með tæp 10 prósent og Píratar með rúm 9 prósent. Þá er Viðreisn með tæp 8 prósent og Framsóknarflokkurinn með rúm 6 prósent. Flokkur fólksins mælist svo með rúmlega 4 prósenta fylgi og Björt framtíð með tæplega 2 prósent.

Ef þetta verða niðurstöður kosninganna munu sjö flokkar fá kjörna fulltrúa á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn fengi sautján þingmenn kjörna. Þingmenn VG yrðu fjórtán og Samfylkingin ætti þriðja stærsta þingflokkinn með tíu þingmenn. Miðflokkurinn fengi sjö menn kjörna á Alþingi og Píratar fengju sex þingmenn kjörna. Viðreisn fengi fimm þingmenn og Framsóknarflokkurinn 4. 

Í könnun Fréttablaðsins er byggt á tvöfalt stærra úrtaki en í fyrri könnunum í október. Vikmörkin eru á bilinu 0,7 til 2,1 prósent.

Hringt var í 2.551 þar til náðist í 1.602 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 23. og 24. október. Svarhlutfallið var 62,8 prósent, segir í frétt Fréttablaðsins.

Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert