41% kýs Miðflokkinn í stað Framsóknar

Sigmundur Davíð Guðlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Guðlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Alls ætlar 41% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu alþingiskosningum árið 2016 að kjósa Miðflokkinn á morgun.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. Hægt er að kafa djúpt ofan í öll gögnin hér neðst í fréttinni, en í samstarfi við gagnafyrirtækið Datasmoothie er hægt að skoða gagnvirkt hvernig fylgi flokkanna sveiflast frá síðustu kosningum og til þessarar könnunar. 

Þessi prósentutala var 38% í síðustu könnun stofnunarinnar sem var gerð tæpri viku fyrr.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Miðflokkurinn tekur 41% fylgi frá …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Miðflokkurinn tekur 41% fylgi frá Framsókn, samkvæmt könnuninni. mbl.is/Eggert

Miðflokkurinn tekur einnig nokkurt fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, eða 8%. Þar að auki ætla 15% þeirra sem kusu í fyrra annan flokk eða lista en flokkana sem komust á þing að kjósa Miðflokkinn núna.

Graf/mbl.is

11,3% ætla að kjósa Bjarta framtíð aftur

Eins og í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið missir Björt framtíð mest fylgi sitt til Samfylkingarinnar (28%) og til Vinstri grænna (24%).

Aðeins 11,3% sem kusu Bjarta framtíð í fyrra ætla að kjósa flokkinn aftur núna. Þetta er einu prósentustigi minna en í síðustu könnun.

Mest fylgi Framsóknarflokksins fer til Miðflokksins en Sjálfstæðisflokkurinn tekur næstmest fylgi af Framsókn, eða 10%.

Alls ætlar 41% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn síðast að kjósa hann aftur núna.

Óttarr Proppé, formaður Bjartra framtíðar, ásamt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.
Óttarr Proppé, formaður Bjartra framtíðar, ásamt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Fleiri ætla að kjósa Viðreisn aftur

Hlutfall þeirra sem kusu Viðreisn í fyrra og ætla að kjósa hana aftur núna hefur hækkað um tæp sjö prósentustig frá síðustu könnun og er komið í 51%.

15% þeirra sem kusu Viðreisn í fyrra ætla að kjósa Samfylkinguna á morgun og 14% ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Tryggð við Sjálfstæðisflokkinn hefur minnkað lítillega frá síðustu könnun, um þrjú prósentustig. 78% þeirra sem kusu flokkinn síðast ætla að kjósa hann aftur. Mest fer fylgið til Miðflokksins (8%) en næstmest til Framsóknarflokksins (6%).

Graf/mbl.is

Margir Píratar yfir til Vinstri grænna

Tryggð Pírata við flokkinn sinn hefur aftur á móti aukist lítillega, eða um þrjú prósentustig. 57% þeirra sem kusu hann síðast ætla að kjósa hann aftur núna. 21% þeirra sem kusu Pírata í fyrra ætla að kjósa Vinstri græna á morgun og 12% ætla að kjósa Samfylkinguna.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli

Mikil tryggð við Samfylkinguna

Tryggð Samfylkingarfólks er mest, því að 83% þess ætla að kjósa flokkinn aftur í ár. 5% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra ætla að kjósa Pírata og jafnmargir ætla að kjósa Vinstri græn.

Hvað Vinstri græn varðar ætla 13% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra að kjósa Samfylkinguna á morgun en 77% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra halda tryggð við hann í ár.

Katrín Jakobsdóttir formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir formaður VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hægt er að greina öll gögnin mun dýpra í meðfylgjandi gagnvirku grafi sem unnið er í samstarfi við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Datasmoothie.

Skoðanakönnunin fór fram dagana 22.-25. október. Hún náði til 1.500 manna úrtaks úr þjóðskrá sem svaraði könnuninni í síma og tvískipts úrtaks þátttakenda í netpanel Félagsvísindastofnunar HÍ. Fyrir símahluta könnunarinnar var tekið 250 manna úrtak úr öllum sex kjördæmum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert