Alls ætlar 41% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu alþingiskosningum árið 2016 að kjósa Miðflokkinn á morgun.
Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. Hægt er að kafa djúpt ofan í öll gögnin hér neðst í fréttinni, en í samstarfi við gagnafyrirtækið Datasmoothie er hægt að skoða gagnvirkt hvernig fylgi flokkanna sveiflast frá síðustu kosningum og til þessarar könnunar.
Þessi prósentutala var 38% í síðustu könnun stofnunarinnar sem var gerð tæpri viku fyrr.
Miðflokkurinn tekur einnig nokkurt fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, eða 8%. Þar að auki ætla 15% þeirra sem kusu í fyrra annan flokk eða lista en flokkana sem komust á þing að kjósa Miðflokkinn núna.
Eins og í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið missir Björt framtíð mest fylgi sitt til Samfylkingarinnar (28%) og til Vinstri grænna (24%).
Aðeins 11,3% sem kusu Bjarta framtíð í fyrra ætla að kjósa flokkinn aftur núna. Þetta er einu prósentustigi minna en í síðustu könnun.
Mest fylgi Framsóknarflokksins fer til Miðflokksins en Sjálfstæðisflokkurinn tekur næstmest fylgi af Framsókn, eða 10%.
Alls ætlar 41% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn síðast að kjósa hann aftur núna.
Hlutfall þeirra sem kusu Viðreisn í fyrra og ætla að kjósa hana aftur núna hefur hækkað um tæp sjö prósentustig frá síðustu könnun og er komið í 51%.
15% þeirra sem kusu Viðreisn í fyrra ætla að kjósa Samfylkinguna á morgun og 14% ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Tryggð við Sjálfstæðisflokkinn hefur minnkað lítillega frá síðustu könnun, um þrjú prósentustig. 78% þeirra sem kusu flokkinn síðast ætla að kjósa hann aftur. Mest fer fylgið til Miðflokksins (8%) en næstmest til Framsóknarflokksins (6%).
Tryggð Pírata við flokkinn sinn hefur aftur á móti aukist lítillega, eða um þrjú prósentustig. 57% þeirra sem kusu hann síðast ætla að kjósa hann aftur núna. 21% þeirra sem kusu Pírata í fyrra ætla að kjósa Vinstri græna á morgun og 12% ætla að kjósa Samfylkinguna.
Tryggð Samfylkingarfólks er mest, því að 83% þess ætla að kjósa flokkinn aftur í ár. 5% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra ætla að kjósa Pírata og jafnmargir ætla að kjósa Vinstri græn.
Hvað Vinstri græn varðar ætla 13% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra að kjósa Samfylkinguna á morgun en 77% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra halda tryggð við hann í ár.
Hægt er að greina öll gögnin mun dýpra í meðfylgjandi gagnvirku grafi sem unnið er í samstarfi við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Datasmoothie.
Skoðanakönnunin fór fram dagana 22.-25. október. Hún náði til 1.500 manna úrtaks úr þjóðskrá sem svaraði könnuninni í síma og tvískipts úrtaks þátttakenda í netpanel Félagsvísindastofnunar HÍ. Fyrir símahluta könnunarinnar var tekið 250 manna úrtak úr öllum sex kjördæmum.