Þrír ráðherrar án þingsætis

Graf/mbl.is

Nokkrar breytingar hafa orðið á milli vikna á því hverjir eru líklegir til að taka sæti á nýju þingi samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Verði niðurstöður kosninga í samræmi við þessa lokakönnun er ljóst að þrír ráðherrar úr síðustu ríkisstjórn ná ekki kjöri. Það eru þau Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, í Norðausturkjördæmi, Björt Ólafsdóttir í Suðvesturkjördæmi og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í Reykjavík norður.

Lilja ennþá úti

Þessi nýja könnun sýnir einnig að Framsóknarflokkurinn nær ekki inn manni í Reykjavíkurkjördæmunum eða Suðvesturkjördæmi og mun því ekki eiga fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu. Þar með er varaformaður flokksins, Lilja Alfreðsdóttir, úti og Willum Þór Þórsson nær ekki kjöri. Miðflokksmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi framsóknarmaður, nær hins vegar kjöri í Reykjavík suður miðað við þessar niðurstöður.

Í Reykjavík norður nær Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir ekki kjöri fyrir Miðflokkinn en Samfylkingin bætir við sig þriðja þingmanninum, Evu H. Baldursdóttur. Píratinn Halldóra Mogensen er aftur komin inn en Vinstri græn hafa misst einn mann frá síðustu könnun.

Graf/mbl.is

Í Norðvesturkjördæmi hefur sú breyting orðið á milli kannana að Teitur Björn Einarsson úr Sjálfstæðisflokki nær ekki kjöri en píratinn Eva Pandóra Baldursdóttir er aftur komin inn. Í Norðausturkjördæmi nær framsóknarkonan Líneik Anna Sævarsdóttir kjöri.

Staðan í Suðurkjördæmi er óbreytt frá síðustu könnun. Þar koma ný inn á þing miðflokksmaðurinn Birgir Þórarinsson og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi fyrir Vinstri-græna. Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, næði ekki kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, ekki heldur.

Tveir þingmenn halda sætum sínum í Suðvesturkjördæmi, öfugt við niðurstöður síðustu könnunar. Þetta eru þeir Vilhjálmur Bjarnason í Sjálfstæðisflokki og Jón Steindór Valdimarsson í Viðreisn. Þá er Willum Þór úti eins og áður sagði og Samfylking missir þriðja mann sinn.

Jöfnunarmenn á ferðinni

Miðað við niðurstöður könnunarinnar er Samfylkingin næst því að bæta við sig þingmanni. Sjálfstæðisflokkurinn er næst því að missa mann. Síðasti maður inn er Vilhjálmur Bjarnason í 5. sæti Sjálfstæðisflokks í Suðvestur. Hann er þó með minna fylgi á bak við sig en til að mynda þriðja sæti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík norður og Norðvestur. Samkvæmt sérfræðingum Félagsvísindastofnunar sýnir þetta hvernig litlar breytingar geta haft mikil áhrif á það hverjir ná kjöri. Það er því viðbúið að kosninganóttin verði löng fyrir þá sem eru í jöfnunarþingsætum eða nálægt þeim.

18 ný andlit á þingi

Helstu breytingar í fjölda þingmanna á landsvísu eru að Samfylkingin hefur misst einn frá könnuninni sem kynnt var um síðustu helgi. Fengi flokkurinn alls 10 þingmenn samkvæmt könnuninni nú en hafði 11 síðast. Framsóknarflokkurinn er með fimm þingmenn eins og síðast. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 17 menn rétt eins og síðast en Vinstri græn missa tvo þingmenn milli kannana, fengju 14 nú en höfðu 16 síðast.

Graf/mbl.is

Viðreisn hefur aukið fylgi sitt og fengi flokkurinn fimm þingmenn samkvæmt könnuninni nú en rétt skreið inn með þrjá síðast. Píratar fengju nú sex þingmenn og bæta við sig einum frá síðustu könnun. Miðflokkurinn fær sex eins og í síðustu könnun.

Verði úrslit kosninganna á þessum nótum myndu 18 nýir þingmenn taka sæti á Alþingi; átta konur og 10 karlar. Alls myndu þá 27 konur sitja á þingi á móti 36 körlum. Það er fækkun frá nýafstöðnu þingi þegar 30 konur sátu á móti 33 körlum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert