Til nokkuð snarpra orðaskipta kom milli Loga Einarssonar, formanns Samfylkingar, og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í leiðtogaumræðunum á RÚV.
Logi hóf að útskýra stefnu Samfylkingar og sagði að flokkurinn væri með skýra stefnu um hvernig ætti að styrkja félagslega kerfið. Hann sagði að við minnstu áföll lenti venjuleg fjölskylda í vítahring, jafnvel fáttækt. „Þessu þarf að breyta,“ sagði Logi.
„Þorgerður Katrín og Bjarni birtust sem jafnaðarmenn fyrir síðustu kosningar. Felldu svo grímuna eftir kosningar og sauðargæruna í haust. Núna eru þau aftur orðin jafnaðarmenn en verða aftur hægrimenn eftir kosningar,“ sagði Logi. Hann bætti við að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei gert grein fyrir því hvaðan 34 milljarðarnir kæmu sem flokkurinn ætlaði að nota í skattalækkanir:
„Ætlar hann að segja upp kennurum, lögregluþjónum, hjúkrunarfræðingum eða veikja almannakerfið? Þau verða að svara þessu fyrir morgundaginn,“ sagði Logi.
„Þegar Samfylkingin kom inn í ríkisstjórn 2009 þá hækkuðu þau skatta á fólk með millitekjur yfir 40%,“ sagði Bjarni. „Við ætlum ekki að hækka skatta á laun,“ greip Logi þá fram í.
„Þegar við tókum þennan skatt og lækkuðum hann niður fyrir 37% þá voru þau á móti. Við ætlum að taka hann í 35% ef okkar stefna nær fram að ganga fyrir þetta fólk...“ sagði Bjarni en Logi greip þá aftur fram í fyrir honum.
„Geturðu haldið þér rólegum, örstutt“ spurði Bjarni þá Loga og bætti því við að skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins jafngiltu 600 þúsund krónum á ári fyrir hjón með meðaltekjur.
„Þau sjá aldrei tilefni til að lækka skatta,“ sagði Bjarni og beindi orðum sínum til Loga.
„Skattatillögur Sjálfstæðisflokksins skila fólki á lægstu laununum, 280 þúsundum, einni heimsendri pitsu á mánuði. Þeir sem eru með 800 þúsund fá 15 þúsund sem er gott þangað til þú veikist. Þá er betra að hafa öryggisnetið. Bjarni hefur aldrei útskýrt hvernig á að fjármagna þetta,“ sagði Logi.