Skattleggja á millistéttina

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar

„Eina leiðin til að auka skatttekjur umtalsvert er að skattleggja millistéttina. Lunginn af Íslendingum á vinnumarkaði er nú með ráðstöfunartekjur á tiltölulega þröngu bili – þ.e. þegar tekið er til skattlagningar og bóta. Og nýjar tekjur af tekjuskatti þarf því að sækja til fjöldans. Hátekjuskattar skila engum peningum. Og þeir sem hafa lægstu tekjurnar borga ekki mikla skatta. Stærsti skattpósturinn er aftur á móti virðisaukaskattur sem ekki hefur verið mikið til umræðu í þessum kosningum,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, í tilefni af skattatillögum flokkanna fyrir kosningarnar á morgun.

„Ég hef ekki séð neinar raunhæfar tillögur um hvernig auka má skatttekjur ríkisins að einhverju verulegu marki nema því að aðeins að stækka kökuna með áframhaldandi hagvexti. Við erum nú þegar mjög sköttuð á nær alla kanta. Það er erfitt að sjá það fyrir sér að hægt sé að sækja mikið meira fjármagn með hærri skattbyrði.“

Viðskiptaráð Íslands hefur birt greiningu á skattastefnu flokkanna. Í þeirri samantekt er að finna nokkrar helstu tillögur flokkanna í skattamálum. Við þessa samantekt var ekki horft til tillagna Alþýðufylkingarinnar, Dögunar eða Bjartrar framtíðar. Kannanir hafa bent til að afar ólíklegt sé að flokkarnir þrír muni ná inn manni á þing.

Hækki skatta á eldsneyti

Meðal tillagna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er að hækka kolefnisgjald. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hafi bent á að gjald, sem ýmsar þjóðir hafa lagt á losun koldíoxíðs, sé um 80% of lágt til að gagnast sem skyldi til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Ásgeir segir aðspurður að yfirleitt séu áhrifin af bensínsköttum ekki mikil á notkun fólks á bifreiðum og slíkir skattar komi sem bein tekjufærsla frá almenningi til ríkisins.

Ásgeir segir hóflega hækkun á bensínsköttum geta skilað talsverðum tekjum …
Ásgeir segir hóflega hækkun á bensínsköttum geta skilað talsverðum tekjum til ríkisins. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Yfirleitt eru skattar á bensín og bifreiðar óteygin eftirspurn. Fólk verður að nota bílinn sinn. Það hafði töluverð áhrif eftir hrunið þegar bensínið hækkaði út af gengisfallinu. Fólk hætti að keyra út úr bænum. En ég held að tiltölulega hófleg hækkun á bensíngjaldi muni ekki hafa veruleg áhrif á bifreiðanotkun og muni geta skilað einhverjum auknum tekjum“

Sykurskattur skili litlu

VG leggur jafnframt til að vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki og sykraða matvöru verði færðir í hærra virðisaukaskattsþrep, eða úr 11% í 24% miðað við núverandi kerfi.

Ásgeir telur aðspurður að skatttekjur af þessu verði hverfandi.

Þá leggur VG til að tekinn verði upp auðlegðarskattur á ný. Rætt er um 1%-1,5% hlutfall og ótilgreint frítekjumark þannig að margir verði undanþegnir skattinum. Er hann ætlaður „stóreignafólki“. Jafnframt leggur VG til hátekjuskatt á árstekjur yfir 25 milljónir og þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt.

Getur leitt til fjárflótta

Ásgeir telur þessa skattstofna heldur ekki munu skila miklu í ríkissjóð.

„Það getur jafnvel haft neikvæð áhrif [á tekjur ríkissjóðs] að leggja á auðlegðarskatt og hækka fjármagnstekjuskatt. Peningar geta farið úr landi. Það þarf því fjármagnshöft til að fá eitthvað úr þessum sköttum. Þess ber að minnast að fjármagnshöft voru þegar auðlegðarskattur var við lýði [2010-2014].“

VG leggur jafnframt til hækkun veiðigjalda. Hversu mikið er ekki tilgreint. Samkvæmt áætlun með fjárlögum 2018 eiga þau að hækka úr 6,4 milljörðum í ár í 10 milljarða á næsta ári, eða um 56%.

Ásgeir telur hækkun veiðigjalda munu ekki skila miklu enda sé það mjög ofmetið í almennri umræðu hvað sé hægt að fá mikið af fjármagni með því að skattleggja framlegð útgerðarinnar.

Skattur á ofurlaun skilar litlu

Meðal tillagna Framsóknarflokksins er að endurskoða erfðafjárskatt.

Samkvæmt áætlun með fjárlagafrumvarpi 2018 mun hann skila 4 milljörðum í ár en 4,4 milljörðum á næsta ári.

Ásgeir telur aðspurður að niðurfelling þessa skattstofns muni ekki hafa mikil áhrif í hagkerfinu. Þó kunni hann að örva neyslu þegar arfur er greiddur út.

Þá leggur Framsóknarflokkurinn til hátekjuskatt á „ofurlaun“ og „ofurbónusa“. Líkt og með tillögu VG um hátekjuskatt telur Ásgeir þetta munu litlu skila í ríkissjóð.

Eykur tekjur fyrst, svo dragast þær saman

Píratar hafa lagt fram skuggafjárlög.

Þar er meðal annars lagt til að hækka fjármagnstekjuskatt í 30%. Þó á að vera veittur skattafsláttur á móti til að flestir fái skattalækkun. Það er ekki útskýrt frekar.

„Það gætu verið töluverð áhrif af þessu. Ef fjármagnstekjuskattur hækkar til dæmis árið 2019 verður straumur af peningum út úr öllum einkahlutafélögum og eignarhaldsfélögum er hækkunin tæki gildi. Mér finnst mjög líklegt að við sæjum tiltölulega mikla aukningu í tekjum ríkisins af þessum skattstofni strax á næsta ári en síðan er líklegt að hærri skattprósenta myndi skila eitthvað hærri tekjum en hve mikið er óljóst. Fjármagn er sem kunnugt er mjög hreyfanlegt og flýr gjarnan undan sköttum, eða þá að farvegir þess breytast,“ segir Ásgeir.

Þá vilja Píratar meiri hækkun gistináttaskatts í ferðaþjónustu. Hversu mikið er ekki tilgreint. Var gjaldið þrefaldað úr 100 krónum í 300 krónur í haust.

Ásgeir telur slíkar breytingar munu skila hverfandi tekjum í ríkissjóð.

Ásgeir segir hækkun á gistináttaskatti líklega skila hverfandi tekjum í …
Ásgeir segir hækkun á gistináttaskatti líklega skila hverfandi tekjum í ríkissjóð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Veiðigjöld hækki um 20%

Jafnframt leggja Píratar til að veiðigjald hækki samkvæmt áætlun úr 10 í 12 milljarða á næsta ári. Það er 20% hækkun. Þá skuli heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda seldar á hærra verði.

Ásgeir bendir á að stóriðjan noti núna langmest af kolefniskvóta landsins og tekjurnar af þessum lið liggi því þar. „Ég hef ávallt skilið það þannig að kolefniskvótar væru innifaldir í samningum við stóriðjuna og að það sé ekki hægt að rukka fyrir þá sérstaklega. Lögfróðir menn verða að úrskurða um það mál en hér gætu einhverjir fjármunir verið í húfi.“

Skattalækkun hefði mikil áhrif

Tillögur Sjálfstæðisflokksins í skattamálum miða almennt að skattalækkunum. Ein þeirra er að lækka tekjuskatt (að meðtöldu útsvari) í neðra þrepi úr um 37% í um 35%.

Ásgeir segir þetta munu hafa töluverð áhrif á tekur ríkissjóðs. „Lægsta þrepið hefur áhrif á alla. Þetta eru töluverðir peningar en rynnu jafnt til nær allra á vinnumarkaði og myndi án efa örva eftirspurn sem eitt og sér myndi skila einhverjum auknum skatttekjum,“ segir Ásgeir.

Þá boðar Sjálfstæðisflokkurinn lækkun tryggingagjalds, líkt og fleiri flokkar. Ásgeir segir tryggingagjaldið hafa verið hækkað verulega í kjölfar hrunsins vegna mikils atvinnuleysis. Atvinnulífið hafi gert kröfu um að þar sem atvinnuleysi hafi nú lækkað eigi hækkun tryggingagjaldsins að ganga til baka. Það gildi þó hið sama og um lækkun tekjuskatts. Áhrifin verði mikil.

Hvað varðar þá tillögu Sjálfstæðisflokksins að lækka fjármagnstekjuskatt og skattleggja raunávöxtun í stað nafnávöxtunar segir Ásgeir þetta vera erfitt í framkvæmd. „Mun betri leið væri einfaldlega að stuðla að lítilli verðbólgu fremur en fara út í slíkar reikniæfingar,“ segir hann.

Millistéttin borgar alltaf

Samfylkingin leggur til þrepaskiptan tekjuskatt, vill auka bilið milli skattþrepa og fjölga þeim.

„Laun flestra eru á tiltölulega þröngu bili. Þannig að allar hreyfingar á skattþrepum, sem eru tiltölulega neðarlega, hafa veruleg áhrif. Það er millistéttin sem er aðalskattstofninn. Það er hún sem borgar alltaf og svo hefur alltaf verið. Skattaþrepin liggja núna innan þess tekjubils sem millistéttin er með á Íslandi. Það liggur því augum uppi að hreyfingar eða hækkanir á þessum þrepum hafa því veruleg áhrif á ráðstöfunartekjur millistéttarinnar með tilheyrandi tekjuáhrifum fyrir ríkissjóð. Hættan við slíkar aðgerðir felst ávallt í hækkun jaðarskattheimtu sem síðan dregur úr vinnuvilja þegar fólk áttar sig á því að aukin vinna skilar nær engum aukatekjum.“

Þá leggur Samfylkingin til að raforkufyrirtæki og hitaveitur greiði auðlindagjald.

Ásgeir segir þetta leið til að láta stóriðjuna borga meiri skatta. Það muni hafa áhrif.

Landsbyggðarafsláttur skilar litlu

Meðal tillagna Miðflokksins er að skapa skattalega hvata fyrir fólk og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins.

Ásgeir segir slíkar ívilnanir ekki skipta sköpum fyrir ríkisfjármálin í stærra samhengi. Þær geti þó haft veruleg staðbundin áhrif úti á landi.

Hvað snertir þá tillögu Miðflokksins að stöðva verðtryggingu af neytendalánum segir Ásgeir þetta ekki munu hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Tillaga Miðflokksins um lækkun tryggingagjalds geti hins vegar vegið þungt.

Miðflokkurinn leggur einnig til endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingu húsnæðis á „köldum svæðum“. Ásgeir bendir á að aðeins 7% heimila á Íslandi búi á köldum svæðum. Því verði efnahagsleg áhrif slíkrar endurgreiðslu ekki endilega mikil í heildarsamhengi þó staðbundin áhrif geti verið mun meiri.

Lítil breyting frá núverandi kerfi

Viðreisn leggur til markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi. Líkt og með tillögur annarra flokka um veiðigjöld telur Ásgeir þetta ekki munu hnika til fjármálum ríkissjóðs að miklu marki. Hins vegar geti svonefnt afgjald í ferðaþjónustu skilað þó nokkrum tekjum í ríkissjóð.

Hvað varðar tillögu Viðreisnar um skattfrjálsa sparnaðarreikninga fyrir fyrstu kaupendur segir Ásgeir hér lagt til sambærilegt kerfi og verið hefur við lýði. Þetta muni því litlu breyta.

Mun kosta ríkissjóð mikið fé

Loks leggur Flokkur fólksins til hækkun persónuafsláttar svo tryggja megi 300 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu á mánuði.

Ásgeir segir að almennt sé hækkun á persónuafslætti afskaplega dýr fyrir ríkissjóð. Tekjuskatturinn sé enda risavaxinn skattstofn.

Má þar nefna að samkvæmt áætlun með fjárlagafrumvarpi 2018 er tekjuskattur á einstaklinga talinn munu skila 179,2 milljörðum króna á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert