Útgjaldamet í aðsigi eftir kosningar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Kosningaloforð stjórnmálaflokkana þarf að skoða í því ljósi að opinber umsvif eru nánast hvergi meiri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi. Met verða slegin í ríkisútgjöldum gangi loforðin eftir, vegna þess að þau snúast að mestu um varanlega aukningu ríkisútgjalda.

Þetta kemur fram í úttekt Samtaka atvinnulífsins á sköttum og ríkisútgjöldum á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Meðal annars eru tekin saman kosningaloforð flokkanna og metið hvernig ríkisútgjöld myndu þróast. Nemur aukningin á mann um 142 þúsund krónum. 

„Mikilvægt er að skapa skilning á hlutverki ríkisfjármála við jöfnun sveiflna. [...]Aukning ríkisútgjalda í efnahagsuppsveiflu mun óhjákvæmilega framkalla sársaukafullan niðurskurð í þeirri niðursveiflu sem kemur í kjölfarið og tekjustofnar dragast saman. Það er jafn vandasamt að stýra ríkissjóði í uppsveiflu og niðursveiflu í efnahagslífinu.“

Úr úttekt Samtaka atvinnulífsins

Opinber útgjöld, leiðrétt fyrir lífeyris- og bótagreiðslum, eru um 40% af landsframleiðslu samanborið við 36% að meðaltali í OECD-ríkjunum. Frá árinu 2012 hafa útgjöld til heilbrigðis- og menntamála vaxið mun meira en heildarútgjöld ríkisins. Framlög hafa vaxið um 30% til heilbrigðismála og 15% til menntamála samanborið við 6% vöxt til allra annarra málaflokka samtals. 

„Í því ljósi verða útgjöld til heilbrigðis- og menntamála ekki aukin enn frekar nema með því að draga úr ríkisútgjöldum á öðrum sviðum.

Úr úttekt Samtaka atvinnulífsins

Ísland við ystu mörk

Samkvæmt greiningu SA er skattheimta nær hvergi eins mikil og á Íslandi. Heildarskatttekjur hins opinbera á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu (34%) eru nálægt því að vera mestar meðal þróaðra ríkja og eru töluvert yfir meðaltali OECD, sem liggur á bilinu 24-25%. 

„Þeir stjórnmálaflokkar sem lofa mikilli aukningu ríkisútgjalda boða óhjákvæmilega miklar skattahækkanir. Í því efni er Ísland við ystu mörk. Danmörk og Svíþjóð eru einu þróuðu ríkin í heiminum sem leggja á hærri skatta.“

Úr úttekt Samtaka atvinnulífsins

Bendir SA á að skattahækkanir hafi lokað fjárlagagatinu milli 2009 og 2014 að mestu leyti. Breyting á frumgjöldum hafi komið ríkissjóði 29% áleiðis en breyting á frumtekjum 71%. Raunar hafi heildarskatttekjur ríkissjóðs vaxið um þriðjung að raunvirði frá 2009, sem jafngildi 580 þúsund króna hækkun á mann. 

Bitnar að lokum á almenningi

Þá segir í úttekt SA að skattheimta á fyrirtæki sé sú næsthæsta á Norðurlöndum. Sem hlutfall af landsframleiðslu voru skatttekjur af fyrirtækjum 3,5% en meðaltal OECD-ríkjanna er um 3,2. Þetta hlutfall hefur hefur hækkað verulega frá því á árunum 2004-2007, þegar það var um 2%. 

Mikilvægt er að hafa hugfast að allar skattahækkanir bitna að lokum á almenningi með einum eða öðrum hætti. Skattar á fyrirtæki draga úr getu þeirra til að hækka laun, fjölga starfsfólki og standast erlenda samkeppni. Skattar á fjármagnseigendur draga úr getu og vilja til fjárfestinga og draga úr vexti efnahagslífsins og sköpun nýrra starfa.“

Úr úttekt Samtaka atvinnulífsins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert