Ólöf Ragnarsdóttir
Kjörsókn fer betur af stað í en í fyrra í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi, samkvæmt upplýsingum frá yfirkjörstjórnum kjördæmanna.
Í Suðurkjördæmi höfðu um 6,28% kjósenda skilað atkvæði sínu klukkan 11.00. Á sama tíma í fyrra voru það um 5,05%. Á kjörskrá í kjördæminu eru 36.154.
Kjörsókn í Suðvesturkjördæmi kl. 13:00 er 15,7 % en þar hafa 10.928 manns kosið.
Á kjörskrárstofni eru 69.498 manns.
Kjörsókn í Reykjavík er að sama skapi betri en í fyrra. Í Reykjavíkurkjördæmi suður höfðu 10,74% kosið klukkan 12.00 en á sama tíma í fyrra höfðu 8,5% kjósenda skilað atkvæði sínu. Á kjörskrá eru 45.607. Klukkan 12.00 höfðu um 10,65% kjósenda mætt á kjörstað í Reykjavíkurkjördæmi norður en í fyrra 8,76%. Á kjörskrá eru 46.109.
Norðvesturkjördæmi er eina kjördæmið þar sem kjörsókn ferr ver af stað en í fyrra. Klukkan 11.30 höfðu um 9,5% kosið en á sama tíma í fyrra voru það um 10%. Á kjörskrá eru 21.516.
Ekki fengust tölur um kjörsókn í Norðausturkjördæmi að svo stöddu en þar eru 29.618 á kjörskrá.