„Náði að setja x-ið á réttan stað“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, náði að setja x-ið á réttan …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, náði að setja x-ið á réttan stað í morgun. mbl.is/Eggert

„Ég náði að setja x-ið á réttan stað, ég réð við verkefnið,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, létt í bragði eftir að hafa kosið í Hagaskóla í morgun. Katrín segir það alltaf mikla hátíðarstund hjá sér að kjósa. „Þó er það auðvitað orðið alltítt svona í seinni tíð og við vonum að það skapist hér pólistískur stöðugleiki eftir þessar kosningar.“

Ný verkefni strax á morgun

Katrín segir þessa kosningabaráttu hafa verið stutta og snarpa og í ljósi þess hve óvænt kosningarnar komu upp var margt sem þurfti að vinna á þreföldum hraða. „Þetta er búið að vera skemmtileg barátta og maður er búinn að hitta margt fólk og það er náttúrlega það skemmtilegasta við þetta. Stjórnmál snúast á endanum um fólkið í landinu.“

Aðspurð hvort endir þessarar kosningabaráttu sé léttir segir Katrín kjördag alltaf ákveðinn vendipunkt. „En svo vitum við líka að það taka við ný verkefni strax að loknum kjördegi, og nýtt upphaf.“

Sofnaði og missti þingmann

Í dag mun Katrín heimsækja kosningakaffi á vegum VG á höfuðborgarsvæðinu, hitta fólk og minna sína nánustu á að mæta á kjörstað. „Þetta verður spennandi langt fram eftir og ég á ekki von á því að nokkur maður verði farinn að sofa fyrr en um sexleytið,“ segir Katrín.

Kosningavaka VG verður í Iðnó og segir Katrín ávallt góða stemningu myndast. Hún láti sig þó yfirleitt hverfa þegar líða tekur á kvöld svo hún geti setið yfir þessu öllu saman eins og góðri spennumynd. „Ég sofnaði nú í fyrra og missti einn þingmann á meðan ég svaf, þannig ég mun ekki láta það henda aftur,“ segir Katrín og hlær.

Svo virðist sem hluti kjósenda sé óákveðinn allt fram á kjördag. Katrín hvetur fyrst og fremst til þess að fólk mæti á kjörstað, það sé stóra málið. „Síðan auðvitað vona ég bara að okkar málflutningur og það hvernig við höfum reynt að vera samkvæm sjálfum okkur og heiðarleg í þessari baráttu skili sér í góðum árangri.“

Katrín kaus í Hagaskóla í morgun.
Katrín kaus í Hagaskóla í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert