8% Sjálfstæðismanna strikuðu út í Suðurkjördæmi

Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason náðu sætum fyrir …
Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason náðu sætum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi.

Tæplega átta prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi strikuðu yfir nafn eða nöfn á lista flokksins, að því er upplýsingar frá yfirkjörstjórn í kjördæminu herma.

Það er fjarri því að vera nógu mikið til að uppröðun á listanum breytist en til þess að fella mann í fyrsta sæti niður um sæti þurfa 25% kjósenda listans að strika út nafn hans. Hlutfallið er 20% þegar kemur að öðru sætinu en 14,3% þegar kemur að því þriðja. 

Ekki fást upplýsingar um hvaða frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins fékk flestar útstrikanir. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá þingmenn kjörna í kjördæminu; Pál Magnússon, Ásmund Friðriksson og Vilhjálm Árnason. Flokkurinn fékk ríflega sjö þúsund atkvæði í kjördæminu.

Um fimmtíu kjósendur Samfylkingarinnar strikuðu yfir nafn eða nöfn á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Það er innan við 2%. 

Aðrar yfirkjörstjórnir hafa ekki veitt nákvæmar upplýsingar um yfirstrikanir. Í flestum kjördæmum fást þau svör að yfirstrikanir hafi verið mjög fáar og ekki til þess fallnar að breyta röð frambjóðenda. Í einhverjum kjördæmum er talningum á útstrikunum ekki lokið. Þá hefur yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi vísað á landskjörstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert