Pawel Bartoszek er einn þeirra þingmanna sem misstu sæti sitt á þingi eftir kosningarnar í gær. Hann lýsir starfi alþingismanns við það að aftengja sprengju í færslu á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann kveður þingstarfið sem hann segir vera draumastarf sitt.
Pawel var kosinn á þing fyrir Viðreisn fyrir ári og segir hann að á þeim tíma hafi hann verið höfundur að fjórum frumsömdum frumvörpum. „Það er slatti í samanburði við aðra. Þrjú fjölluðu um innflytjendamál. Það fjórða var kannabisfrumvarpið,“ segir hann. Þá hafi hann einnig verið framsögumaður nefndarálits í sjö málum.
Hann segir tölfræðina þó ekki skipta máli heldur hafi hann haft unun af því að leita sátta. Slík vinna sé þó með þeim vanköntum að aðeins sé fjallað um þau mál þegar illa tekst. „Að fá mál sem virðist í algerum hnút, setjast niður með þingmönnum ólíkra flokka, sjá hvað hver vill, leita lausna, skýra hvað sé hægt og hvað ekki. Tilfinningin er svipuð og að aftengja sprengju. En eins og í því dæmi þá er það bara frétt þegar það mistekst. Ekki þegar það tekst.“
Að lokum segir Pawel að það sé ótrúlega valdamikið starf að fá að ráða því hvað sé leyft og hvað sé bannað, hve mikinn pening eigi að taka af fólki og hvað eigi að nota hann í. Hann segist þakklátur fyrir tímann á þingi þó að hann sé svekktur yfir að hafa ekki fengið lengri tíma.