Litlu mátti muna að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, þyrfti að leita sér að nýrri vinnu í kjölfar þingkosninga. Björn, sem er þingmaður í Reykjavík suður, „datt inn“ á níunda tímanum í morgun á kostnað flokkssystur sinnar, Evu Pandoru Baldursdóttur.
Björn segist hafa verið úti þegar hann fór að sofa í nótt en bjóst við því að Píratar myndu bæta við þingmanni í lokin. Hann kveðst þó hafa gert ráð fyrir því að Eva Pandora eða Einar Brynjólfsson yrðu inni.
„Þetta kom mér alveg pínu á óvart. Ég sá tölurnar í morgun þegar ég vaknaði og þá var ég enn úti. Konan mín tók eftir þessu á undan mér en ég sagði bara: „Haa, nei! Ég var að skoða þetta rétt áðan og þá var ég úti.“,“ segir Björn Leví og hlær.
Hann segir að enn og aftur komi í ljós hversu gallað kosningakerfið er. Til að mynda fær Samfylkingin fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn en færri þingmenn. Einnig sýnist Birni að Píratar hefðu átt að fá jöfnunarþingmann í Norðvestur eða Norðaustur áður en hann varð jöfnunarþingmaður í Reykjavík suður.
Átta flokkar verða á þingi og Birni líst óvenjuvel á framhaldið. „Ég held að þetta komi til með að þvinga stjórnmálin í að semja meira. Þegar það eru ekki einn eða tveir risaflokkar sem vaða yfir allt og alla með risa þingstyrk þá verður samstarfið á aðeins meiri jafnræðisgrundvelli,“ segir hann og bætir við að þó staðan sé flóknari séu málin að einhverju leyti að þróast í rétta átt.
Björn segir að það þurfi að endurskoða fimm prósenta regluna en flokkar þurfa að fá fimm prósent atkvæða til að ná manni inn á þing. „Hún var sett með þeim rökum að það væri svo flókið að vera með litla flokka á þingi. Þá var það leyst með því að koma í veg fyrir að þeir kæmust auðveldlega á þing í stað þess að leysa hvernig litlir flokkar geta starfað á þingi. Það er vandamál sem við þurfum að leysa núna af því að við erum með svo marga litla flokka á þingi.“