Talningu atkvæða er ekki lokið í þremur kjördæmum og er ekki von á lokatölum úr Norðvesturkjördæmi fyrr en í fyrsta lagi upp úr klukkan níu. Mikið er um utankjörfundaratkvæði á mörgum svæðum sem tefur talningu.
Kjörstjórnin í Suðvesturkjördæmi vonast til þess að lokatölur geti legið fyrir um klukkan átta og í Norðausturkjördæmi upp úr átta.
Eva Pandóra Baldursdóttir, þingmaður Pírata, náði uppbótarþingsætinu af Sigurði Páli Jónssyni, frambjóðanda Miðflokksins, þegar 12 þúsund atkvæði höfðu verið talin en þau hafa skipst á að vera inni á Alþingi eða úti í nótt.
Eins og staðan er núna yrði Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn á þingi með 16 þingmenn og tapar fimm þingmönnum. VG bætir við sig einum þingmanni og er með 11 þingmenn. Samfylkingin fengi 7 þingmenn sem er aukning um fjóra þingmenn og Framsóknarflokkurinn heldur sínum átta þingmönnum.
Miðflokkurinn er með 7 þingmenn, Píratar sex þingmenn og tapa fjórum en Flokkur fólksins fengi fjóra þingmenn líkt og Viðreisn en síðastnefndi flokkurinn tapar þremur þingsætum. Björt framtíð kæmi engum manni inn á þing en fékk fjóra þingmenn fyrir ári.
Ef þetta verður niðurstaðan tapar ríkisstjórnin 12 þingsætum og er með 20 þingmenn. Ár er síðan gengið var síðast til alþingiskosninga á Íslandi en ríkisstjórnin féll þegar Björt framtíð ákvað að slíta samstarfinu í kjölfar frétta af því að faðir forsætisráðherra, Benedikt Sveinsson, hafði skrifað upp á meðmæli með dæmdum barnaníðingi um að viðkomandi fengi uppreist æru.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafði sagt forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, frá þessu í sumar en ekki greint öðrum ráðherrum frá því.
Í gærkvöldi voru þau Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir, ráðherrar Bjartrar framtíðar, sammála um að það hefði verið hárrétt ákvörðun um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu þrátt fyrir að það hefði kostað flokkinn þingsætin. Sveitarstjórnarkosningar væru framundan og að Björt framtíð myndi horfa fram á veginn.
„Við erum mjög meðvituð um það að við gerðum mjög stóran hlut, við í raun og veru ollum mjög stórri breytingu í íslenskri pólitík með því að slíta ríkisstjórn út frá leyndarhyggju og út frá vinnubrögðum og það er stór breyting og við stöndum stolt við það en skiljum það vel að það virðist ekki vera að skila sér til okkar í fylgi,“ sagði Óttarr í viðtali við fréttamann RÚV þegar fyrstu tölur lágu fyrir á ellefta tímanum í gærkvöldi.
Ef farið er yfir stöðuna eins og hún liggur fyrir núna - en hafa verður í huga að þetta getur breyst þegar lokatölur liggja fyrir - þá kemur enginn nýr inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Hjá VG kemur Ólafur Þór Gunnarsson nýr en um leið gamall inn á þing þar sem hann hefur bæði setið áður á þingi sem aðalmaður og varamaður. Hann kemur inn sem jöfnunarþingmaður flokksins í SV-kjördæmi.
Fjórir Samfylkingarmenn munu setjast nýir á þing að loknum kosningum en af þeim hefur Ágúst Ólafur Ágústsson áður setið á þingi. Helga Vala Helgadóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir eru aftur á móti að koma ný inn ekkert þeirra hefur setið áður á Alþingi.
Ásmundur Einar Daðason snýr aftur á þing fyrir Framsóknarflokkinn og eins Líneik Anna Sævarsdóttir og Willum Þór Þórsson. Auk þeirra mun Halla Signý Kristjánsdóttir koma ný inn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn.
Fjórir nýir þingmenn koma frá Miðflokknum en það eru þau Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Valgerður Sveinsdóttir og Birgir Þórarinsson sem var varaþingmaður Framsóknarflokksins 2009-2013.
Hjá Pírötum kemur Helgi Hrafn Gunnarsson aftur inn á þing en aðrir þingmenn Pírata voru fyrir á þingi.
Flokkur fólksins fær fjóra þingmenn samkvæmt þeim tölum sem nú liggja fyrir og eru þeir allir nýir á þingi. Það eru þau: Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason, Guðmundur Ingi Kristinsson og Ólafur Ísleifsson.
Allir fjórir þingmenn Viðreisnar hafa setið á þingi undanfarið ár þannig að engin breyting er þar á. Aftur á móti komu þau öll ný inn á þing þá fyrir utan Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem áður sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.